Reykjavík síðdegis fékk Umferðarljósið

http://www.fib.is/myndir/Thorgeir.jpg
Þorgeir Ástvaldsson stjórnandi þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Á Umferðarþingi sem fram fór í Reykjavík í gær var útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis og aðstandendum hans veitt Umferðarljósið. Umferðarljósið er viðurkenning Umferðarráðs, veitt þeim sem unnið hafa sérstaklega árangursríkt og eftirtektarvert starf á sviði umferðaröryggismála. Umferðarljósið var fyrst veitt árið 1990 og var þetta því í 8. sinn sem það er veitt. Tilgangur verðlaunanna er að hvetja til góðra og þýðingarmikilla starfa sem stuðla að betri og öruggari umferð. Þetta er í fyrsta sinn sem fjölmiðill fær þessi verðlaun.

Þorgeir Ástvaldsson sagði þegar hann tók við viðurkenningunni úr hendi Kristjáns Möller samgönguráðherra að þau átta ár sem þátturinn hefði verið við lýði hefðu umferðarmál alltaf verið ofarlega á baugi. Á þeim tíma hefði bílum fjölgað mjög í landinu og sá tími sem fólk eyðir í bílum sennilega fjórfaldast. „Við höfum náð eyrum þess fólks sem er í ökutækjum á þessum tíma milli fjögur og hálf sex á hverjum degi. Þessvegna kannski höfum við komist í samband við hina óbreyttu í umferðinni, við höfum hleypt þeim að og verið ágengir við þá sem eru við stjörnvölinn í umferðarmálunum.“ Þorgeir sagðist heita því að áfram yrði í þættinum fjallað um umferðarmál og umferðaröryggismál af sanngirni en jafnframt af ákveðni.

Kristján Möller samgönguráðherra sagði að fjölmiðlar væru afar mikilvægur þáttur í að veita stjórnamálamönnum og embættismönnum sem starfa að umferðarmálum aðhald og stundum veitti ekki af. Að öðrum ólöstuðum hefðu umsjónarmenn útvarpsþáttarins „Reykjavík síðdegis,”  þeir Þorgeir Ástvaldsson, Kristófer Helgason, Bragi Guðmundsson og áður Ásgeir Páll Ágústsson verið fundvísir á áhugaverð málefni, ekki hvað síst í sambandi við umferð og umferðaröryggi. Meðal þess sem einkenndi þætti þeirra og umfjallanir væri það að oftar en ekki sé kafað dýpra ofan í málin en almennt gerist og þannig komi fram ólík viðhorf og sjónarhorn, sem efli skilning fólks á viðfangsefninu. Síðan sagði ráðherra: „Þeirra styrkur er að þeir eru í beinu sambandi við hlustendur og hika ekki við að leita til þeirra sem þekkingu hafa á einstökum sviðum þegar umferðarmál eru til umræðu. Einnig virðast þeir vera vakandi vegfarendur, því oft brydda þeir upp á einhverju sem þeir sjálfir hafa séð eða upplifað. Öll umfjöllun þeirra félaga hefur verið í anda þess að gera umferðina örugga fyrir alla vegfarendur.“
http://www.fib.is/myndir/Umfljosid.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frá afhendingu Umferðarljóssins. Frá vinstri: Birgir Hákonarson framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs Umferðarstofu, Bragi Guðmundsson, Kristófer Helgason og Þorgeir Ástvaldsson frá Reykjavík síðdegis, Kristján Möller samgönguráðherra og sr. Karl V. Matthíasson formaður umferðarráðs.