Ríflega helmingur landsmanna á ónegldum vetrardekkjum

Niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu sýna að ríflega 54% aðspurðra aka á ónegldum vetrardekkjum yfir veturinn og hefur þeim fjölgað um 6 prósentustig á milli ára.

Umtalsverðan mun er að sjá eftir búsetu fólks en rétt rúmlega 30% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu aka um á nagladekkjum yfir veturinn en íbúar á landsbyggðinni nota þau í mun meiri mæli (68%). Mest er notkunin meðal Norðlendinga en rétt um 83% þeirra aka á nagladekkjum yfir veturinn.

Nokkur umræða hefur verið um notkun nagladekkja að undanförnu og hver áhrif notkun þeirra eru á bæði loftgæði og umferðaröryggi. Maskína hefur frá árinu 2020 spurt lansdmenn um vetrardekkjanotkun þeirra og í ár má sjá nokkra breytingu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 950, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 11. til 15. nóvember 2022.

Ítarlegri niðurstöður má nálgast hér.