Ríkið gerir sér hátt heimsmarkaðsverð á olíu að féþúfu

The image “http://www.fib.is/myndir/Bensind.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Stjórn FÍB hefur sent fjármálaráðherra eftirfarandi áskorun sem er svohljóðandi:
Félag íslenskra bifreiðaeigenda skorar á stjórnvöld að koma til móts við fólkið í landinu með því að lækka álögur sínar á bifreiðaeldsneyti nú þegar heimsmarkaðsverð á olíu er í sögulegu hámarki og síhækkandi.
Miðað við verðþróunina á heimsmarkaði frá sl. áramótum stefnir óðfluga í það að tekjuaukning ríkissjóðs af virðisaukaskatti á hið háa eldsneytisverð verði hátt í 500 milljónir króna miðað við eitt ár og að eldsneytisútgjöld almennings í landinu vaxi um tvo milljarða. Það er fyllilega eðlilegt að ríkisvaldið komi til móts við almenning með þessum hætti en geri sér ekki ástandið á heimsmarkaðinum að féþúfu.
Ennfremur bendir FÍB á það að breyta þurfi skattlagningunni á eldsneyti í þá veru að ekki sé lagðir skattar á skatta ofan eins og nú er gert. Skattlagningin er nú með þeim hætti að ofan á verð eldsneytisins eins og það kostar komið til landsins leggjast vörugjöld og bensín- og olíugjöld. Þar á ofan leggst síðan 24,5% virðisaukaskattur þannig að með honum er verið að innheimta skatt af þeim sköttum og gjöldum sem þegar er búið að leggja á eldsneytið. Þetta þarf nauðsynlega að leiðrétta.