Ríkiseinokunarfyrirbærið Isavia ræðst að ferðalöngum

Mynd: Petur P. Johnson.
Mynd: Petur P. Johnson.

Ríkiseinokunarfyrirbærið Isavia sem eitt sinn hét Flugmálastjórn og rekur flugvelli landsins hefur boðað stórfelldar hækkanir á bílastæðagjöldum við aðal flughöfn Íslands; Leifsstöð við Keflavíkurflugvöll. Hækkanirnar eru frá 30 prósentum upp í 117 prósent. Hækkanir af þessu tagi eru órafjarri íslenskum efnahagsveruleika um þessar mundir. Hin nýja og stórhækkaða gjaldskrá tekur gildi 1. apríl nk. Það er ekki aprílgabb.

Réttlæting og rök stofnunarinnar fyrir þessum ofurhækkunum eru verulega sérkennileg. Í tilkynningu á Isavia.is segir nefnilega að þær séu nauðsynlegar vegna mikillar fjölgunar farþega um Keflavíkurflugvöll og gríðarlega aukinnar aðsóknar að bílastæðum við flugvöllinn. Nauðsynlegt sé því að fjölga þeim. Nýting langtímastæðanna hafi t.d. náð 96 prósentum sem þýði það að færri en 100 af 2.100 stæðum séu laus á álagstímum. „Af þessum sökum verður gjaldskránni breytt og bílastæðagjöldin hækkuð, svo þau geti staðið undir kostnaði við stækkunarframkvæmdir,“ segir í tilkynningunni. Það er algerlega ný viðskiptafræðikenning að aukin aðsókn og góð nýting kalli á hærra verð, eins og ríkisfyrirbærið Isavia reynir að telja fólki trú um. Yfirleitt er það á hinn veginn.

Í tilkynningu Isavia á heimasíðu sinni er reynt að réttlæta ofurhækkanirnar með því að verulega dýrara sé að leggja bílum á Kastrup í Kaupmannahöfn, Gardemoen við Osló, Arlanda við Stokkhólm og í Helsinki. Þessi samanburður getur tæpast talist marktækur. Svo Kastrupflugvöllur sé tekinn sem dæmi þá er landrými umhverfis flugvöllinn mun þrengra þar en í kring um Leifsstöð og margfalt dýrara en á Miðnesheiðartúndrunni. Þá eru langtímabílastæði á Kastrup að langmestu leyti í bílastæðahúsum en við Leifsstöð eru þau á berangri. Við Kastrup og hinum flugvöllunum standa bílar flugfarþega ekki úti á berangri. Þar þarf enginn að eiga von á því að koma að bíl sínum fenntum í kaf og þurfa að grafa hann úr fönn. Samanburður við þessa flugvelli og verðlagningu bílastæðanna þar er út í hött. Hann er í ætt við það að bera saman appelsínur og kartöflur.

Nánar má fræðast um ofurhækkanirnar á heimasíðu Isavia.