Rinspeed UC rafbíll

Rinspeed bíla- og farartækjahönnunarfyrirtækið í Sviss hefur alltaf haft einstaklega gott lag á því að vekja athygli með frumlegum og góðum hugmyndum sem sumar hverjar eru kannski ekki lífnauðsynlegar, eins og sportbíllinn sem breyst getur í bát og síðan kafbát. En Frank M. Rinderknecht og starfsfólk hans er einstaklega hugmyndaríkt og á heimasíðu þeirra má líta nokkuð af því sem Rinspeed fæst við og hefur fengist við. 

http://www.fib.is/myndir/Rinspeed3.jpg
http://www.fib.is/myndir/Rinspeed2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Rinspeed1.jpg
Rinspeed UC - frumlegur og öðruvísi.

Á bílasýningunni í Genf ætlar Rinspeed að sýna nýjan rafmagnsbíl sem er sagður tilbúinn til að fara í fjöldaframleiðslu. Þetta er tveggja manna borgarbíllinn UC. Hann er  2,6 metra langur, fer 100 km á hleðslunni og kemst á 120 km hraða. Hann er fallega hannaður hið ytra og líkist einna helst skilgetnu afkvæmi Smart og Fiat 500. Hið innra ræður frumleikinn ríkjum og sem dæmi um það er ekkert stýrishjól, heldur stöng eða „gleðigandur“ (joystick) í stýris stað.

UC stendur fyrir Urban Commuter eða borgarsnattarinn. Útlitið yst sem innst er hugverk Rinspeed en burðarvirki, vélar-, og drifbúnaður og hemlar og annað slíkt er hannað af verkfræðistofu sem heitir Esoro. Rinspeed leitar nú eftir fjárfestum sem vilja taka þátt í að koma bílnum í framleiðslu og munu undirtektir sjálfsagt ráðast mjög af þeim viðtökum sem frumgerðin fær á sýningunni í Genf.

Bíllinn er í raun hluti samgöngukerfis sem Rinspeed hefur hannað. Inntak þess er að bíllinn passi í sérstök stæði um borð í járnbrautarlestum. Ef farið er í langferð er ekið á UC um borð í lestina og út á áfangastað þar sem maður er svo bílinn til taks till að skoða sig um og sinna erindum sínum á ferðalaginu. Frank Rinderknecht segir að með þessu móti geti t.d. þeir sem ferðast í viðskiptaerindum líka nýtt ferðatímann miklu betur en ef þeir sjálfir aka langar leiðir. Þeir geti fengið sér matarbita í veitingavagninum á leiðinni eða setið inni í bílnum og unnið. Hámarksvinnsla rafmótorsins í UC er 130 Nm sem á að nægja til að koma honum á 120 km hraða. Hvorki afl né viðbragð er gefið upp, enda er það sjálfsagt ekki neitt úrslitaatriði í bíl af þessu tagi. Rafhlöðurnar eru af líþíum gerð og eiga að duga til 105 km km aksturs. Tveggja klst. hleðslutími í venjulegri 240 volta, 10 ampera innstungu dugar til 50 kílómetra aksturs. Ef hins vegar stungið er í samband við 400 volta 32 ampera tengil næst sama hleðsla inn á geymana á aðeins 20 mínútum.

100 kílómetra drægi er sjálfsagt nóg fyrir flesta borgarbúa því að rannsóknir sýna að 82 prósent daglegs erindreksturs Evrópubúa á heimilisbílnum er akstursleiðin styttri en 60 kílómetrar. Næturlöng hleðsla rafbíls af þessu tagi frá heimilisinnstungu nægir því fyllilega daglegri akstursþörf borgarbúans og gott betur.

Aðspurður um stýripinna í stað stýrishjóls segir Rinderknecht að öll áður þekkt leiðindi við svona stýripinna í bíl séu ekki til staðar í UC. Stýripinninn sé mjög góður og skili góðri tilfinningu fyrir veginum í hönd ökumannsins sem heldur um pinnann og stýringin sé örugg, nákvæm og auðveld.