Risa-hraðferjur milli Danmerkur og Noregs

The image “http://www.fib.is/myndir/Speedferry1.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Það verður bylting í samgöngum milli Jótlands og vesturstrandar Noregs ef fyrirætlanir stjórnenda ferjuútgerðarinnar Color Line um mjög hraðskreiðar risaferjur rætast.
Fulltrúar hins norska útgerðarfélags og fulltrúar Aker skipasmíðastöðvarinnar í Finnlandi hafa undirritað viljayfirlýsingu um smíði tveggja hraðferja. Á hvorri um sig verður rými fyrir 1.800 farþega og um 400 fólksbíla. Bílabrautirnar um borð verða samtals tveggja kílómetra langar. Vinnuheiti þessara ferja er Color Line Superspeed og verðið á stykkið um 8,4 milljarðar ísl. króna. Endanleg ákvörðun verður tekin fyrir 15. desember nk. en gangi þessar fyrirætlanir eftir byrjar fyrri risaferjan að sigla eftir mitt ár 2007 og sú síðari ári seinna. Áætlunarleiðir þeirra verða milli Kristianssand í Noregi og Hirtshals á Jótlandi og milli Larvik í Noregi og Hirtshals.
Forstjóri Color Line, Trond Kleivdal segir við NTB fréttastofuna að nauðsynlegt sé að gera breytingar á hafnaraðstöðunni á viðkomustöðum nýju hraðferjanna. Stefnt sé að því að semja um það við hafnayfirvöld og um leið og þeir samningar séu í höfn sé hægt að gefa grænt ljós á smíði skipanna.
Siglingartíminn milli Hirtshals og Kristianssand er með núverandi ferjum fimm og hálfur til sex tímar. Nýju ferjurnar verða helmingi fljótari í förum.