Risafyrirtæki í bílgreininni í erfiðleikum

The image “http://www.fib.is/myndir/Delphilogo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Bandaríski bílaiðnaðurinn á í erfiðleikum um þessar mundir og á laugardag fékk næst stærsta framleiðslufyrirtæki íhluta í bíla í heiminum greiðslustöðvun. Fyrirtækið heitir Delphi og var þar til árið 1999 í eigu General Motors en hefur verið rekið sem sjálfstætt fyrirtæki síðan og framleiðir hverskonar íhluti og tæknibúnað fyrir velflesta bílaframleiðendur.
Delphi er annað stærsta íhlutaframleiðslufyrirtæki heims, næst á eftir Robert Bosch AG. Hjá því starfa 185 þúsund manns um allan heim.
Fyrirtæki eins og Delphi eru undirframleiðendur eða birgjar fyrir bílaframleiðslufyrirtækin og eru bæði stærri og mikilvægari en fólk almennt kannski gerir sér grein fyrir. Á þeirra vegum fara fram rannsóknir og tilraunir og nýsköpun á sér stað auk þess sem þau framleiða og setja saman ákveðna hluta nýrra bíla, t.d. innsprautunarkerfi fyrir vélar, mæla og mælaborð, rafkerfi og öryggisbúnað í nýja bíla o.m.fl.