Risasamningar um dísilhreinsibúnað

Búnaður sem lítið danskt tæknifyrirtæki -Amminex- framleiðir, hreinsar allt að 99 prósent eða nánast öll heilsuskaðleg nítursambönd úr útblæstri dísilvéla. Þetta er besta hreinsun þessara efnasambanda úr útblæstri dísilbíla hingað til og miklu betri en hreinsun sem svokallaður AdBlue búnaður ræður við og margfalt betri en Euro-6 mengunarstaðallinn krefst.

Búnaðurinn er enn sem komið er eingöngu gerður fyrir stóra dísilbíla eins og strætisvagna, rútur og vörubíla. Hann hefur verið settur í strætisvagna í Kaupmannahöfn og London en nýlega fékk fyrirtækið pöntun frá Sól í S. Kóreu á búnaðinum í strætisvagna og stóra bíla, alls yfir 20 þúsund farartæki.

Búnaður þessi nefnist ASDS (Ammonia Storage and Delivery System). Gagnstætt AdBlue hreinsibúnaði sem er í ýmsum dísilfólksbílum eins og Mercedes, VW og Audi og BMW, þá er megin hreinsiefnið í ASDS-búnaðinum amoníak en ekki þvagefni eins og í AdBlue og afköstin minna háð háu hitastigi en þekkst hefur fram að þessu. Þá eykst losun CO2 og þar með gildi gróðurhúsalofts í útblæstrinu ekkert við það að ASDS búnaðurinn sé tengdur við vél bíls.

Lesa má nánar um ASDS™ á heimasíðu Amminex.

-SÁ