Risavaxinn leynilegur bílakirkjugarður uppgötvast í USA

http://www.fib.is/myndir/Kirkjug1.jpg

Um langt skeið hefur gengið sú flökkusaga meðal bandarískra fornbílamanna að í ríkinu Rhode Island í USA fyrirfinnist risavaxinn bílakirkjugarður, einskonar Þyrnirósarhöll inni í þéttvöxnum skógi sem enginn hafi augum litið um áratugi og ruglaður eigandi hans verji staðinn með vopnavaldi og freti úr  haglabyssu á hvern þann sem reynir að komast í „garðinn.“ http://www.fib.is/myndir/Kirkjug2.jpg

Nú er komið í ljós að sagan um garðinn er sönn. Það er líka satt að eigandinn, sem er kengruglaður og sífullur karl um sjötugt, skýtur á hvern þann sem hann sér reyna að komast að til að sjá einhverja af þeim um 20.000 bílum sem þar eru. Margir bílanna eru klassískir kraftabílar frá því upp úr miðri síðustu öld og fram á áttunda áratuginn.

Bílarnir hafa margir hverjir staðið þarna óhreyfðir um áratugi því að eigandinn hefur ekki viljað láta af hendi úr þeim eitt einasta stykki. Kannski hann sé að bíða eftir dómsdegi og ekki bara upprisu holdsins heldur líka upprisu ónýtu bílanna. Yfirvöld hafa krafið eigandanum skýringar á tilveru þessa bílakirkjugarðs, krafist þess að tekið verði til á svæðinu og sótt um starfsleyfi. Ella verði bílarnir settir í tætarann allir sem einn.

http://www.fib.is/myndir/Kirkjug-3.jpgÞað er bílaáhugamannamiðillinn www.mustangforum.com sem hefur uppgötvað bílakirkjugarðinn mikla. Maður frá miðlinum hefur komist inn í hann og tekið fjölda mynda sem hægt er að skoða hér. Þessi nýuppgötvaði bílakirkjugarður er á afskekktu svæði nyrst og austast í Bandaríkjunum.

Þarna eru bílar frá ýmsum tímum bílasögunnar en mikið er af aflmiklum bílum frá sjöunda og áttunda áratugi sl. aldar. Eigandinn hefur eignast þá og komið þeim fyrir á svæðinu en aldrei nokkru sinni auglýst eða látið boð út ganga um að bílar eða bílavarahlutir væru til sölu. Meirihluti bílanna er búinn að standa of lengi til að hægt sé með góðu móti að endurbyggja þá. Þeir eru huldir gróðri og mjög ryðgaðir neðan frá og upp eftir að hafa staðið óhreyfðir áratugum saman. En þar sem aldrei hefur verið tekið neitt úr fjölda bílanna, eru þarna líklega samankomin ókjör af nýtanlegum varahlutum fyrir fornbílaáhugamenn.