Rolls fyrir leiðtoga alþýðunnar

Hongqi L9 er lúxuslimúsína fyrir alþýðuleiðtogana sem stjórna Kínaveldi. Þetta er mikið ferlíki, rúmlega sex metrar að lengd og vafalítið dýrasti bíllinn sem fáanlegur er í Kína. Skyldi hann vera peninganna virði?

Nafnið á bílnum, Hongqi þýðir Rauði fáninn sem eitt og sér vísar til þess að þetta sé bíll handa leiðtogunum, og þeir hafa vissulega tekið mark á því í tímans rás því að Rauði fáninn var uppáhalds farartæki æðstu manna kínverska kommúnistaflokksins allt frá 1950 og fram á ofanverðan níunda áratuginn. Þá lagðist framleiðslan af en hefur nú hafist aftur og voru nýjustu gerðirnar einmitt sýndar í einskonar heiðursstúku á bílasýningunni í Shanghai fyrir skemmstu. Gerðir Hongqi  eru allnokkrar en stærst er ofurlúxuslínan sem hefur auðkennisstafinn L. Hún inniheldur gerðirnar L5, L7 og L9 og er sá með hæsta tölustafinn sá flottasti. Vélin í honum er 12 strokka og er afl hennar ekki tíundað nákvæmar en svo að hún er sögð vera milli 400 og 500 hestafla.

Hongqi vörumerkið er nú í eigu kínversku bílaverksmiðjunnar FAW, en FAW hefur það aðallega fyrir stafni dags daglega að fjöldaframleiða fólksbíla fyrir kínverskan almenning. Framleiðsla á Hongqi hófst á ný árið 2010 eftir að hafa legið niðri í tæp 30 ár. Tilefnið var það að 60 ára afmæli kínverska alþýðulýðveldisins stóð fyrir dyrum og það vantaði fyrirmennafarartæki við hæfi. Eftir afmælishátíðahöldin jókst eftirspurnin verulega og er sögð fara jafnt og þétt vaxandi enda þótt verðið á L9 sé tæplega 180 milljónir ísl króna.

L línunni er fyrst og fremst beint í samkeppni við mestu lúxusbíla Rolls Royce og Bentley. En minni bílar sem tilheyra svokallaðri H-línu eru sagðir í samkeppni við þýsku lúxusbílana BMW 7-línuna, Audi A8 og Mercedes S-línuna.

En setja má spurningamerki við orðið samkeppni í þessu sambandi því að allir þeir Hongqi bílar sem byggðir hafa verið síðan 2010 (um 500 talsins) eru í eigu kínverska ríkisins og í notkun hjá hátt settum embættismönnum ríkis og sveitastjórna.