Rúgbrauð framtíðarinnar?

Fyrstu Volkswagen rúgbrauðin; sendi- og fólksflutningabílarnir sem höfðu gerðarheitin T1 til T3 nutu mikilla vinsælda og heillegir bílar af árgerðunum frá ca. 1955-1974 eru orðnir verðmætir safngripir. Af og til mörg undangengin ár hefur Volkswagen sýnt hugmyndabíla á bílasýningum sem áttu að fanga að einhverju leyti anda gömlu rúgbrauðanna, en síðan látið þar við sitja.

Þessa dagana stendur yfir rafbílasýningin CES í Las Vegas og þar sýnir Volkswagen enn einn bílinn af þessu tagi – reyndar mjög áhugaverðan. Bíllinn er hreint ekki að endurspegla neina sérstaka fortíðarþrá heldur er fullur af fjölbreyttum og margskonar tæknibúnaði. Enganveginn er víst að hann verði nokkru sinni fjöldaframleiddur en telja má víst að ýmislegt af hönnun og tæknibúnaði hans eigi eftir að koma fram í framtíðarbílum VW.

Hugmyndabíllinn í Las Vegas heitir BUDD-e. Hann er byggður á nýja undirvagninum MEB sem í raun eru undirvagnseiningar sem raða má saman á marga vegu svo úr verði margskonar og talsvert ólíkir bílar. BUDD-e í Las Vegas er hreinn rafbíll og er rafhlöðusamstæðan sem afkastar 92,4 kW, er byggð inn í gólfið. 136 ha, 200 Nm rafmótor knýr framhjólin. Annar rafmótor knýr afturhjólin. Hann er 170 ha. með 290 Nm togkraft. Samanlagt er aflið þannig 305 hö. viðbragðið 0-100 er 7 sek. og hámarkshraðinn er rúmlega 180 km á klst.

Með 92,4 kílóWatta rafgeyma er drægi bílsins samkvæmt hinni evrópsku NEDC aðferð 533 km. Sé drægið mælt með bandarísku mæliaðferðinni EPA er það 375 km. Hlaða má geymana, annarsvegar  með því að stinga honum í samband við þvottavélartengil sem tekur 10-12 klst, eða þá með tengingu við hraðhleðslustöð og þá tekur það einungis hálftíma að hlaða tóma geymana upp í 80% sem er svipað og hjá Tesla.

BUDD-e er 460 sm langur og er því einungis 8 sm lengri en VW Touran. Breiddin er 194 sm og hæðin 184. Lengd milli hjóla er talsverð miðað við heildarlengd bílsins eða 315 sm. Það þýðir að skögun yfir bæði fram- og aftrhjólum er tiltölulega stutt. að bæði framan og aftan.

Volkswagen hefur ekkert sagt um hvort eða hvenær til standi að framleiða BUDD-e þannig að enn verður bíllinn að skoðast einvörðungu sem einskonar sýningarkassi fyrir nýja og fjölbreytta rafeinda-, rafmagns- og tölvutækni sem án efa á meira og minna eftir að sjást í VW bílum í næstu framtíð.