Rúmlega helmingur landsmanna er andvígur innheimtu veggjalda

Rúmlega helmingur landsmanna kveðst andvígur innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi en um þriðjungur er hlynntur. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 18.-28. janúar 2019. Kváðust 34% svarenda mjög andvíg slíkum veggjöldum, 18% frekar andvíg, 21% frekar fylgjandi og 11% mjög fylgjandi. Þá kváðust 17% hvorki fylgjandi né andvíg innheimtu veggjalda. Litlar breytingar voru á afstöðu landsmanna frá könnun MMR sem framkvæmd var í maí 2018.

Fram kemur í könnun MMR að konur reyndust jákvæðari gagnvart veggjöldum en karlar en 33% kvenna kváðust fylgjandi innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi, samanborið við 29% karla. Karlar voru hins vegar líklegri til að segjast andvígir innheimtu slíkra gjalda (54%) heldur en konur (49%). Jákvæðni gagnvart veggjöldum jókst með auknum aldri en 42% svarenda í elsta aldurshópi kváðust fylgjandi innheimtu veggjalda, samanborið við 36% þeirra á aldrinum 50-67 ára og 27% þeirra undir fimmtugu. Lítill munur var á afstöðu svarenda eftir búsetu.

Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (49%), Vinstri-grænna (44%) og Viðreisnar (44%) reyndust líklegust til að segjast fylgjandi veggjöldum en stuðningsfólk Miðflokksins ólíklegust (14%). Þá voru stuðningsfólk Miðflokksins (73%), Flokks fólksins (61%) og Pírata (59%) líklegust til að segjast andvíg innheimtu veggjalda en 65% stuðningsfólks Miðflokks og 61% stuðningsfólks Flokks fólksins kváðust mjög andvíg.

Þegar litið er til breytinga niðurstaðna frá fyrri könnunum má sjá hvernig afstaða fólks til veggjalda hefur breyst eftir flokkslínum eftir því sem liðið hefur á umræðuna. Má í því sambandi nefna að í janúar 2011, þegar Vinstri græn og Samfylking sátu í ríkisstjórn, mældist mest andstaða meðal sjálfstæðismanna þegar spurt var hvort að nýta ætti veggjöld til að standa undir nýframkvæmdum í samgöngumálum og sögðust ekki nema 11% sjálfstæðisfólks fylgjandi veggjöldum. Í maí 2017 sögðust hins vegar 32% sjálfstæðismanna vera hlynnt því að veggjöld stæðu undir rekstri þjóðvega á Íslandi, í apríl 2018 var hlutfallið komið upp í 45% og í dag mælist það 49% eins og fram kemur í könnun MMR.

 Veggjöld - graf 1

 

Veggjöld - graf 2