Rússa-Datsun

Datsun er eitt elsta vörumerki í sögu bílsins. Það hefur legið í dvala allmörg undanfarin ár en hefur nú verið endurvakið á bílum fyrir markaðssvæði sem eiga sér styttri einkabílahefð en vestræn ríki. Datsun verður þannig nafn á bílum í einfaldari og ódýrari kantinum fyrir þessi markaðssvæði og nú er fyrsti Datsun bíllinn um langt skeið á leið á markað í Rússlandi.

Þegar Datsun nafnið var lagt til hliðar nefndust bílarnir eftir það Nissan. Nissan er nú nokkurnveginn helmingur samsteypunnar Renault-Nissan og framleiðir bíla undir þeim nöfnum og nokkrum fleiri. Framleiðslan á sér stað mjög víða og ekki bara í Frakklandi (Renault) og Japan (Nissan) heldur einnig í Kóreu, Bandaríkjunum, Rússlandi, Rúmeníu og víðar. Megin vörumerki samsteypunnar í Bandaríkjunum er Infiniti sem er “Premium” merki Nissan og í Rúmeníu er ódýra vörumerkið Dacia framleitt en Dacia byggir á tækni frá bæði bæði Nissan en sérstaklega þó Renault. Dacia bílarnir áttu upphaflega að fara á “fátækari” markaðssvæði A. Evrópu og Afríku, en það merkilega gerðist að eftirspurn í efnaðri hluta Evrópu varð miklu meiri en vænst var eftir þessum tiltölulega einföldu og ódýru bílum. Nú er eftir að sjá hvað gerast í þessum efnum með Datsun.

http://fib.is/myndir/Datsun-DO2.jpg
http://fib.is/myndir/Datsun-DO3.jpg

En það var Carlos Ghosn forstjóri og stjórnarformaður Nissan-Renault sem fylgdi nýja Datsun bílnum úr hlaði inn á Rússlandsmarkaðinn fyrr í vikunni. Hann sagði við það tækifæri að Rússland væri nú fimmta stærsta markaðssvæði samsteypunnar og markmiðið væri að þrefalda söluna þar á næstu þremur árum. Hann kvaðst vænta þess að nýi Datsuninn ætti eftir að vega þungt í því að þær væntingar rættust og að Datsun yrði von bráðar þriðjungur allrar sölu bíla frá Nissan Motors á Rússlandsmarkaði.

Nýi Datsun bíllinn nefnist Datsun on-DO. Útlit hans var hannað hjá Global Design Center í Japan en tækniþróunarvinnan fór fram hjá AVTOVAZ (Lada) í Rússlandi þar sem bíllinn verður fjöldaframleiddur. Datsun on-DO er fernra dyra stallbakur. Hann er 433 sm langur, 170 sm breiður og150 sm hár. Skottið er 530 lítrar að rúmtaki og vélin er þrautreynd. Hún er frá Nissan og er 1,6 l, 87 ha. bensínvél. Sala á honum í Rússlandi hefst í sumar.

Um þessar mundir eru 100 ár frá því að fyrsti Datsun bíllinn eða DAT, eins og hann hét, var byggður austur í Japan. Datsun varð vinsælt bílmerki á Vesturlöndum á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar og varð á þeim árum helsta glansmerki Ingvars heitins Helgasonar og bílafyrirtækis hans. Ingvar hafði áður séð Íslendingum fyrir ódýrum og fremur frumstæðum austurþýskum Trabant og Wartburg bílum en þegar japönsku bílarnir Datsun og Subaru bættust við hjá Ingvari tóku hjólin að snúast fyrir alvöru.