Rússneskur ofursportbíll

Ekki hefur farið miklum sögum af bílaiðnaði Rússa síðustu árin og nýsköpun og nýhugsun verið heldur fyrirferðarlítil. En á bílasýningunní í Frankfurt gaf þó að líta þrjú eintök af glænýjum rússneskum ofursportbíl, Marussia, sem bílablaðamenn segja að hafi allt til að bera sem góðan sportbíl má prýða, þar á meðal frumleika í bæði tæknilegu tilliti sem og útliti.

 

http://www.fib.is/myndir/Fomenko.jpg
 
Nikolay Vladimirovich   Fomenko.

Frumkvöðull þessa Marussia bíls er Nikolay Vladimirovich Fomenko, gamall poppari sem var leiðtogi hljómsveitar sem hét Secret og var mjög vinsæl í Rússlandi á níunda áratuginum. Auk þess að spila í hljómsveitinni sinni lék hann í kvikmyndum og framhaldsþáttum, stjórnaði vinsælum sjónvarpsþáttum og stundaði alþjóðlegan  kappakstur með ágætum árangri á Porsche 996 GT3 RSR og Ferrari 550.

 

http://www.fib.is/myndir/Marussia-1.jpg  
Marussia sportbíll hins rússneska Clarksons.  

Sem bæði, popp-, sjónvarps- og kappakstursstjarna leiddist Formenko út í það að verða stjórnandi bílaþáttar í rússnesku sjónvarpi sem líkir eftir hinum breska TopGear og er Formenko því orðinn einskonar Jeremy Clarkson Rússlands. Segja má þó að Fomenko gangi lengra en Clarkson því að hann lætur ekki við það sitja að gagnrýna bílana sem hann reynsluekur heldur hannar sjálfur bíla eins og bílar eiga að vera að hans mati.

Marussia sportbíllinn sem Fomenko og félagi hans í bílasmíðinni; Yefim Ostrovsky kynntu í Frankfurt er með 3,5 lítra 245 ha. V6 miðjumótor frá Renault-Nissan. Hestöflin 245 ættu að duga ágætlega þar sem þyngd bílsins er einungis eitt tonn. Þeir félagarnir sögðu að þeim væri full alvara með að fara út í bílaframleiðslu og að verið væri að þróa sportbíllinn sem rafbíl með geymum sem þola hinn ískalda rússneska vetur. Þá væri jepplingur með sítengdu fjórhjóladrifi í bígerð. Hann yrði einskonar ofur Porsche Cayenne