Rúta brann í norskum veggöngum

Upp úr kl.13 í gær kviknaði í hópferðabíl inni í Gudvanga veggöngunum í Noregi. Göngin tengja saman héruðin Sogn og Fjordane og eru næst lengstu veggöng í Noregi. Bruninn átti sér stað á útskoti um það bil 500 m inni í göngunum að austanverðu. Norska ríkisútvarpið greinir frá því að neyðarkall hefði borist rétt fyrir kl. 13.30 í gær. Björgunarsveitir voru fljótar að báðum endum ganganna og björgunaraðgerðir hófust fáum mínútum eftir að neyðarkallið barst.  Kl. 16 var staðfest að engin manneskja væri lengur inni í göngunum. Fimm voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahús. Þrír þeirra eru sagðir með slæm brunasár.

Farartækið sem eldurinn kom upp í var hópferðavagn, skráður í Svíþjóð og voru 32 farþegar í honum, allt Asíubúar. Olav Hylland sendibílstjóri sem ók grunlaus inn í göngin rétt áður en björgunarliðar komu á staðinn kom fyrstur að brennandi rútunni. Hann segist hafa séð talsverðan eld og mikinn svartan reyk gjósa upp. Farþegarnir hefðu þá verið að forða sér út úr rútunni og hlaupið í allar áttir ráðvilltir og skelfingu lostnir.

Olav Hylland segist í samtali við norska fjölmiðla hafa hlaupið út úr bíl sínum og tekist að safna öllum 32 farþegunum saman inn í sendibíl sinn og keyrt þá hið snarasta út úr göngunum og falið þá í hendur þeirra björgunaraðila sem þá voru komnir að gangamunnanum. Þá hafði eldurinn magnast mjög og mikill reykur gaus út úr göngunum, eins og hér sést.

Klukkan 15.30 hafði eldurinn í rútunni verið slökktur en talsverður reykur streymdi enn út úr göngunum að vestanverðu. Flestir ef ekki allir þeirra sem voru staddir í göngunum meðan á brunanum stóð, björguðust út úr göngunum austanmegin.

Gudvanga-göngin eru sem fyrr segir 11,4 kílómetra löng. Þau voru opnuð fyrir umferð árið 1991 og eru hluti Evrópuvegarsins E-16 sem tengir saman Bergen og Oslo. Áður hefur orðið stórbruni í þessum göngum. Það var fyrir tveimur árum þegar eldur gaus upp í vöruflutningabíl, skráðum í Póllandi. Enginn lét lífið í þeim atburði en 70 manns voru fluttir á sjúkrahús í Lærdal, Førde, Bergen og Voss.