Rykkjóttur gangur hjá Saab

Bílaframleiðslan hjá Saab í Svíþjóð hefur gengið ansi rykkjótt í vikunni. Ástæðan er sú að þolinmæði undirframleiðenda, flutningsaðila og fleiri samstarfsaðila er þrotin gagnvart því að fá ekki greidda reikninga sína. Reuters fréttaveitan greinir frá því nú í morgun að Saab hafi tekist að semja við undirframleiðandann IAC sem framleiðir mælaborðin fyrir Saab. Því sé framleiðslan aftur farin í gang.

Framleiðslan hefur stöðvast í þrígang í vikunni sem er að líða vegna deilna við undirframleiðendur, einkum IAC. Eric Geers upplýsingafulltrúi Saab segir við Reuters að í gærkvöldi hafi samkomulag tekist milli aðila og nú sé allt komið á beinu brautina. Hann neitar að Saab búi við alvarlegan lausafjárskort.

Hvort sem svo er eða ekki, er ljóst að Saab á í vanda. Fyrirtækið er nú í eigu sportbílasmiðjunnar Spyker í Hollandi sem rekin er með gríðarlegum rekstrarhalla. Engu að síður freista eigendur og talsmenn Saab og Spyker þess að sannfæra fjölmiðla og  fjárfesta um að enginn lausafjárvandi sé til staðar hjá Saab.

Rússneski útrásarvíkingurinn Vladimir Antonov hefur nú sótt um að fá að verða meðeigandi í Saab. Antonov þessi er meðeigandi í Spyker og falaðist eftir kaupum á Saab af GM á sínum tíma ásamt Victor Muller Spykerforstjóra. Þegar fréttir tóku að birtast í fjölmiðlum um tengsl Antonovs við skipulagða glæpastarfsemi aftók GM með öllu að selja Saab fjárfestum með þennan Antonov innan sinna vébanda.

En nú er Antonov aftur kominn á vettvang með sjóði sína og að eigin sögn hreinsað mannorð. En sænska ríkisendurskoðunin verður að samþykkja aðkomu Antonovs vegna þess að sænska ríkið ábyrgist 400 milljóna evra lán Norræna fjárfestingabankans til Saab.