Sá öruggasti

Barack Obama fékk nýjan, mjög öruggan forsetabíl á árinu. Bíllinn er sérbyggður Cadillac og eintökin þrjú í eigu forsetaembættisins eru þau einu sem til eru og verða það áfram því að ekki er ætlunin að raðframleiða forsetabílinn, eða The Presidental Limousine, eins og bíllinn kallast og sagður vera heimsins öruggasti bíll. Bíllinn var byggður í þremur eintökum fyrir forsetaembættið, þannig að það eru tveir geymdir til vara ef eitthvað kemur upp á.

http://www.fib.is/myndir/Forsetabill.jpg

Eiginlega er þetta farartæki virki á hjólum. Bíllinn er skot- og sprengjuheldur og svo brynvarinn að hvorki skriðdrekafallbyssur né eldflaugar eiga að geta grandað honum og þeim sem í honum ferðast. Brynvörnin kemur eðlilega niður á þyngdinni en bíllinn er rúmlega átta tonn að þyngd. Brynvörnin er úr stáli, keramik, koltrefjum og sérstakri storknaðri skotheldri froðu sem fyllir öll holrúm milli brynvarnarlaganna.

Forsetabíllinn er byggður á svipuðum undirvagni og er undir Chevrolet Suburban og til að knýja ferlíkið áfram er notuð stærsta V8 vél sem GM framleiðir. Hún er venjulega 600 hestafla en búið er að bæta hana og stilla af á ýmsa vegu í forsetabílnum þannig að hestöflin verða eitt þúsund talsins þegar mjög mikið liggur við.

Bíllinn er innréttaður þannig að sem best fari um hinn valdamikla mann á ferðalögum. Allur nýjasti og besti fjarskiptabúnaður er í honum, sem og vopnabúnaður sem sjálfur James Bond væri fullsæmdur af.