Saab á leið á hausinn – aftur?
Sænsk-kínverska félagið Nevs, sem keypti þrotabú Saab verksmiðjunnar í Svíþjóð eftir gjaldþrot árið 2012 virðist komið í þrot með reksturinn. Bílaframleiðslan stöðvaðist í maí í vor og fyrirtækið fékk greiðslustöðvun meðan nýs fjár væri aflað og spilin stokkuð á ný. Enn eru þó horfur tvísýnar og í tilkynningu frá Nevs segir að 200 föstum starfsmönnum sem hafi verið verklitlir síðan í maí, verði nú sagt upp. Ástæðan sé sú að enn muni dragast að koma framleiðslunni af stað á ný.
Í tilkynningu Nevs segir að langtímafjármögnun fyrirtækisins sé forsenda þess að hægt verði að gangsetja framleiðsluna á ný sem og það að sett hafi verið upp trúverðug viðskiptaáætlun í samvinnu við nýjan aðaleiganda fyrirtækisins. Við slíkan aðila standi nú yfir viðræður en bindandi samningar hafi enn ekki náðst við hann og séu reyndar ekki í sjónmáli á næstunni.
Starfsmennirnir 200 munu fá uppsagnarbréf sín fyrir næstu mánaðamót. Að þeim brottgengnum verða einungis nægilega margir eftir til þess að halda verksmiðjunni í horfinu þannig að endurræsa megi hana með stuttum fyrirvara.