Saab á tvo daga eftir

Nú eru einungis rúmir tveir dagar eftir til áramóta og þar til gert verður út um hver örlög Saab bílaverksmiðjunnar verða. Stjórn General Motors, eiganda Saab, lýsti því yfir fyrir mánuði að fyndist enginn kaupandi fyrir áramótin yrði versmiðjunni í Trollhättan einfaldlega lokað og starfseminni hætt. Flest bendir til þess að endalokin séu í augsýn því enginn kaupandi hefur gefið sig fram.

 Vefritið realtid.se í Svíþjóð virðist þó, eins og margir Svíar, enn halda í vonina um kraftaverk og greinir frá því að Sergio Marchionne forstjóra Fiat/Chrysler hafi verið boðið til Svíþjóðar að kíkja á Saabverksmiðjuna í Trollhättan því hún geti hæglega orðið heppilegur undirframleiðandi fyrir Fiat og þess vegna byggt einhverjar af þeim nýju gerðum Fiatbíla sem boðaðar hafa verið.

 Frumkvæðið að þessu heimboði til Fiatforstjórans er sagt komið frá sænsk-ítölskum viðskiptamanni sem heitir Salvatore Grimaldi. Grimaldi þessi ætlar ásamt Jacob Wallenberg að halda ráðstefnu í Stokkhólmi þann 26. janúar nk. um framtíð bílaiðnaðarins og þangað hefur hann boðið Sergio Marchionni forstjóra Fiat, en ætlar í leiðinni að kynna honum Saab verksmiðjuna í Trollhättan en hún er nýlega endurnýjuð og sögð mjög sveigjanleg og fær um að byggja bíla af margvíslegu tagi nánast samtímis.

 Grimaldi segir í samtali við vefritið Realtid.se að ef Saab verksmiðjunum takist að landa þremur til fimm samningum um að byggja bíla fyrir aðra bílaframleiðendur þá gæti það þýtt að bílaframleiðsla héldi áfram í Trollhättan. Ef verksmiðjan næði því að framleiða þetta 150-200 þúsund bíla á ári þá dygði það til að reka hana með hagnaði. Grimaldi er hins vegar fáorður um það hver ætti að reka verksmiðjuna sem framleiðanda fyrir aðra, en slær því þó föstu að varla verði það General Motors.

 Salvatore Grimaldi segist ekki enn hafa rætt við forstjóra Fiat en skrifast talsvert á um málið við hann. Grimaldi reknar fastlega með því að komi á ráðstefnuna 26. janúar og greini þar frá þeim nýju bílum sem Fiat ráðgerir í nánustu framtíð.