Saab gjaldþrota

Loksins er dauðastríði Saab Automobile að ljúka því kl. 08.15 í morgun lagði forsvarsmaður fyrirtækisins inn beiðni um gjaldþrotameðferð hjá héraðsdómi Vänersborgaramts. Victor Muller eigandi Saab hefur boðað til fréttamannafundar síðar í dag.

Nú eru liðin tvö ár síðan hollenska sportbílasmiðjan Spyker í eigu Victors Muller keypti Saab af þáverandi eiganda, General Motors. Síðan þá má segja að hvert áfallið hafi rekið annað uns framleiðslan stöðvaðist í aprílmánuði sl. þegar undirframleiðendur og flutningafyrirtæki hættu að afhenda vörur þar sem þeir höfðu ekki fengið greitt fyrir þjónustu sína.

Victor Muller hefur barist hart fyrir lífi Saab Automobile og verið í viðræðum við nokkra kínverska aðila um aðkomu að Saab og endurfjármögnun. Meðal þess sem kom í veg fyrir að Kínverjar tækju Saab yfir að hluta eða öllu leyti voru ýmis framleiðslueinkaleyfi  í eigu General Motors. Stjórnendur GM vildu nefnilega alls ekki að þau kæmust í hendur Kínverja.