Saab í þrotameðferð

Sá frestur og síðan viðbótarfrestur sem GM hafði gefið til að skila viðunandi tilboðum í Saab í Svíþjóð  leið án þess að það sem GM kallar viðunandi tlboð bærist. Þar með bendir flest til þess að Saab heyri brátt sögunni til. Í gær tóku svo tveir þrotabústjórar við stjórn Saab en þeirra hlutverk er að gera fyrirtækið upp og loka því.  En sænskir fjölmiðlar vilja enn halda í vonina og greina frá því í dag að Spyker í Hollandi og fleiri fjárfestar séu um það bil að leggja fram ný tlboð sem gætu orðið Saab til bjargar.

Þrotabústjórarnir hófu störf sín í gær á því að halda fund með fráfarandi yfirstjórn Saab Automobile. Á meðan hann stóð mótmælti stór hópur starfsfólks Saab hástöfum fyrir utan höfuðstöðvar Saab í Trollhattan og kenndu GM um hvernig komið væri fyrir Saab og hétu m.a. á Obama Bandaríkjaforseta að hjálpa til við að bjarga fyrirtækinu. Nick Reilly Evrópuforstjóri GM sagði við fjölmiðla í gær að alls ekki væri enn útilokað að viðunandi tilboð bærist í fyrirtækið. Áhugasamir fjárfestar hefðu enn tvær til fjórar vikur til að hrista slíkt tilboð fram úr ermum sínum.