Saab með BMW vélar

Í nýliðinni viku  voru undirritaðir í höfuðstöðvum Saab í  Trollhättan í Svíþjóð samningar milli Saab ob BMW um tæknisamvinnu. Hún hefst með því að Saab kaupir 1,6 l sparneytnar bensínvélar frá BMW sem sérstaklega verða aðlagaðar að þeim Saab bílum sem þeim er ætlað að knýja.

Nýju vélarnar verða í nýjum gerðum Saab bíla sem  nú eru á teikniborðunum og koma á markað árið 2012. Victor Muller, hinn hollenski eigandi Saab og hollensku sportbílasmiðjunnar Spyker Cars sagði samningurinn við BMW væri mikilvægt skref að því markmiðið að gera Saab aftur að vinsælu vörumerki sem skilar arði. Saab hefur í seinni tíð vantað inn í framleiðslulínur sínar sparneytna bíla af meðalstærð sem jafnframt eru gæðavagnar og einmitt á þessu tvennu hefur BMW góð tök, sagði Victor Muller.

Þær bensínvélar sem nú eru í Saab bílum eru aðallega frá fyrri eiganda Saab, sem er General Motors. GM vélarnar í Saab eru framleiddar í Þýskalandi, Ástralíu og Bandaríkjunum. Þær dísilvélar sem fást í Saab bílum nú eru frá Fiat. Þær eru flestar ávöxtur fyrra samstarfs Fiat og General Motors.

Hreinræktaðar Saab-vélar hafa varla fyrirfundist í Saab bílum nema á fremur stuttu tímabili í sögu Saab. Þriggja strokka tvígengisvélin sem margir muna eftir frá því upp úr 1960 var upphaflega frá DKW í Þýskalandi millistríðsáranna, en lenti austan járntjalds eftir seinna stríð. Hún var upphaflega hönnuð af Dananum Jørgen Skafte Rasmussen verkfræðingi sem um tíma átti DKW. Saab byggði þessa vél samkvæmt einkaleyfi afkomanda Rasmussens. Tvígengisvélin var í Saab 92-95 fram til ársins 1965 en frá og með árinu 1966 leysti V4 vél frá Ford hana af hólmi, allt þar til framleiðslu þessa sögufræga Saab bíls var hætt árið 1980. Saab 99 kom svo fram árið 1968. Sá bíll var með breska Triumph vél fram til ársins 1974

BMW vélarnar sem verða í nýju Saab bílunum  sem koma 2012 verða einnig í Renault bílum en samningar um það hafa áður verið undirritaðir. Þá gerði  BMW samning vipð nýjan bandarískan bílaframleiðanda; Carbon Motors sl. voru um sölu á 240 þúsund sex strokka dísilvélum fyrir nýja sérhannaða og sérbyggða lögreglubíla frá Carbon Motors. Þeir bílar eru sérstaklega ætlaðir fyrir bandarísk löggreglulið.

Nýja vélin fyrir Saab verður framleidd í Bretlandi, enda er að mestu um sömu vél að ræða og er þegar í BMW Mini. Hún á að geta gengið jafnt á etanóli sem bensíni og verður í kring um 200 hestöfl að afli.