Saab sækir um greiðslustöðvun í dag

http://www.fib.is/myndir/Saab%20logo.jpg

Sænskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að Saab yrði lýst gjaldþrota alveg á næstunni, jafnvel í dag. Í dag er þó komið annað hljóð í strokkinn og Auto Motor & Sport greinir frá því í morgun að stjórnendur fyrirtækisins muni í dag leggja inn umsókn um greiðslustöðvun. Greiðslustöðvunin gefi ráðrúm til að endurfjármagna og endurskipuleggja fyrirtækið og markaðssetja þrjár nýjar bílgerðir sem tilbúnar eru í fjöldaframleiðslu.

Umsóknin um greiðslustöðvun verður lögð fram í undirrétti Vänersborgar í dag. Samþykki rétturinn hana hefst um leið vinna við endurfjármögn og endurskipulagningu Saab. Stjórn Saab í Trollhättan hefur boðað til blaðamannafundar sem hefst kl 12.30 í dag. Á útsendri dagskrá fundarins eru þrjú mál: Framtíð Saab, Endurfjármögnun og –skipulagning Saab og loks framtíðarmöguleikar Saab sem sjálfstæðs bílaframleiðanda.

En framtíð Saab ræðst að miklu leyti af því hvernig viðtökur nýjasta rekstraráætlun móðurfyrirtækisins fær hjá stjórnvöldum í Washington. Þau hafa ætlað sér tíma fram til loka marsmánaðar til að yfirfara áætlun GM og ákveða hvort fyrirtækinu verði þá veitt 16,4 milljarða dollara ríkislán til að fleyta því gegn um næstu tvö rekstrarárin. Fái GM ekki ríkislánið þykir ljóst að það verði gjaldþrota.