Saab safnið bjargast

Bústjórn þrotabús Saab hefur nú yfirfarið tilboð sem bárust í Saab bílasafnið og tekið sameiginlegu tilboði Trollhättan-borgar og minningarsjóðs Markúsar Wallenberg og Amalíu konu hans upp á 28 milljónir sænskra króna (512 millj. IKR). Markús þessi var einmitt stofnandi og lengi aðaleigandi Saab flugvéla- og bílaverksmiðjanna.

Forseti borgarstjórnar Trollhättan fagnar þessum málalokum og að safnið dreifist ekki út og suður, eins og hætta var vissulega á. Það verði áfram í borginni enda sé Saab bílasafnið hluti af sögu bæði Saab og hennar og iðnaðar- og tæknisögu Svíþjóðar.

Nú liggur fyrir að finna safninu heppilegt húsnæði þar sem það verður aðgengilegt bæði almenningi og fræðimönnum. Trollhättan-borg og Vestra Gautalandssýsla munu ábyrgjast framtíðarrekstur safnsins.