Sænsk bílvélaframleiðsla á aldarafmæli

http://www.fib.is/myndir/Volvovelar.jpg
Úr vélaverksmiðju Volvo í Skövde.


Um þessar mundir eru hundrað ár síðan framleiðsla bílvéla hófst í bænum Skövde í Svíþjóð og var fyrsta vélin sem þar var byggð gangsett árið 1907. Hátíðarvikunni lýkur á morgun en hún hófst sl. laugardag með því að opið hús var í verksmiðjunni fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra.

Þungaiðnaður í Skövde á sér þó lengri sögu en eina öld. Skövde Gjuteri & Mechanical Workshop (málmsteypa og vélaverkstæði) var stofnuð 1868 og framleiddi upphaflega allskyns verkfæri og tæki til daglegra nota í iðnaði og á heimilum. Fyrsta vélin sem framleidd var í Skövde var bátavél, hönnuð af verkfræðingnum Edvard Hubendick. Vélin nefndist Penta og í framhaldinu fékk verksmiðjan sama nafn.

Volvo bílaverksmiðjan var stofnuð í Gautaborg árið 1927 og á fyrsta starfsárinu byggði Penta 297 vélar fyrir Volvo. Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan og þann 14. júlí sl. var 15 milljónasta vélin framleidd. Volvo gerðist fljótlega hluthafi en eignaðist að lokum öll hlutabréf Penta árið 1935. Vélarnar frá Volvo hafa alla tíð verið þróaðar og endurbættar og nýjar gerðir komið fram reglulega. Um miðja 20. öldina koma t.d. svonefndar B-bílvélar fram á sjónarsviðið og þeirra frægastar fyrir áreiðanleika og endingu eru vafalaust B-18 og B-20 sem voru í t.d. Volvo Amazon og Volvo 140 og 240 seríunum.http://www.fib.is/myndir/Volvovelar2.jpg

Fyrir 100 árum þurfti 6.7 manns til að byggja eina bílvél. Síðan þá hefur vélvæðing og sjálfvirkni aukist svo mjög að til að byggja eina bílvél þurfa nú til dags einungis 0,01 maður að koma að verkefninu.

Vélaframleiðsla Volvo fer nú fram í Skövde, framleiðsla íhluta í vélarnar fer fram í Floby og bílasamsetningarverksmiðja er svo í Torslanda við Gautaborg, önnur í Uddevalla og sú þriðja í Gent í Belgíu. 1.512 manns starfa í Skövde en í vélaframleiðslu Volvo starfa samtals 2,875 manns. Skövde er í héraðinu Vestur-Gautlandi milli vatnanna Vänern og Vättern.