Sænski endurvinnslusjóðurinn er nú tæmdur og niðurlagður

The image “http://www.fib.is/myndir/Bruni3.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Þann 1. júní  sl. tók endanlega gildi nýtt fyrirkomulag í Svíþjóð við förgun bíla. Nú gildir sú meginregla Evrópska efnahagssvæðisins að bílaframleiðendur bera ábyrgð á því að bílum þeirra sé eytt á lögformlegan máta þegar „ævi“ þeirra lýkur. Bílaframleiðendurnir eða umbjóðendur þeirra taka við gamla bílnum og eyða honum og endurvinna hann eftir atvikum. Skilagjald bílanna er innifalið í kaupverðinu og því ekki lengur innheimt sérstaklega af sérstökum endurvinnslusjóði eins og tíðkast hér á landi.

Evróputilskipun um ábyrgð framleiðenda bíla frá „vöggu til grafar.“ tók lagagildi í Svíþjóð 1. janúar árið 1998. Tilskipunin snýst fyrst og fremst um  það að framleiðandi eða umboðsaðili hans ábyrgist að bíl sé eytt, síðasta eiganda eða notanda hans að kostnaðarlausu. Þá náði hún eingöngu til bíla í Svíþjóð sem byggðir voru eftir 1. jan. 1998 en þeir eldri voru á ábyrgð eigenda þeirra. 

Nýju lögin í Svíþjóð sem tóku gildi 1. júní sl. ná hinsvegar til allra bíla, en til að  brúa bilið frá síðustu áramótum og fram til gildistökudagsins 1. júlí var ákveðið að tæma gamla endurvinnslusjóðinn með því að setja sérstakt og raunsnarlegt skilagjald á gömlu bílana frá því fyrir 1998. Tilgangurinn var, fyrir utan það að tæma gamla endurvinnslusjóðinn, að hreinsa út sem allra mest af gömlum og vondum bílum. Þetta sérstaka skilagjald var 4.000 SKR eða 36 þúsund ísl. kr.

Eigendur gömlu bílanna tóku vel við sér og síðustu dagana sem greitt var úr gamla endurvinnslusjóðnum var borgað út skilagjald fyrir allt að 12.500 bíla á dag og þar með tókst að klára þær 102 milljónir sænskra króna sem voru í sjóðnum um síðustu áramót.

Sænska bílgreinasambandið vill nú halda áfram að útrýma gömlum bílum í landinu af umhverfisverndarástæðum. Sambandið hvetur ríkisstjórnina til að setja meira fé í málið og framkvæmdastjóri þess, Bertil Moldén segir við Auto Motor & Sport að viðbrögð við 36 þúsund króna skilagjaldinu sýni það að Svíar vilji einlæglega vera umhverfismildir og draga úr útblæstri bíla og það verði best gert með því að hætta að aka á gömlum og mengandi bílum án hreinsitækja.

Framkvæmdastjórinn segir að gamlir bílar án útblásturshreinsitækja blási út hundraðföldu magni skaðlegra efna heldur en nýir bílar með útblásturshreinsitækjum geri. Hann álítur að um 400 þúsund bílar án hreinsibúnaðar séu enn í umferð í Svíþjóð, þar af séu um það bil 50 þúsund skráðir sem fornbílar og þeir séu ekki í daglegri notkun. Það sé hins vegar afgangurinn, 350 þúsund bílar og þeim verði að fækka.