Sænskt hugvit að baki knastáslausri bílvél

Christian von Koenigsegg skýrir út gang knastáslausu bílvélarinnar á bílasýningunni í Bejing.
Christian von Koenigsegg skýrir út gang knastáslausu bílvélarinnar á bílasýningunni í Bejing.

Á bílasýningunni í Bejing (Peking) í Kína nýlega gaf að líta bíl frá kínversk-, israelsk-, sænska bílaframleiðandanum Qoros með bensínvél sem er merkileg nýjung að því leyti að í henni er enginn knastás sem opnar innsogs- og útblástursventlana þegar vélin er í gangi.

Knastásar hafa hingað til verið hjartað í fjórgengis-bílvélum. Án hans hafa þær hingað til ekki getað gengið. Knastásinn eða knastásarnir ef þeir eru fleiri en einn, snúast í beinum takti með sveifarásnum. Þeir opna og loka ventlunum eftir því hvort stimpillinn er í innsogs-, útblásturs-, eða aflslagi. En þegar enginn er knastásinn í bílvél eru þar með allar áhyggjur, vandamál og fjárútlát vegna tímareimaskipta, slitinna tímareima og tímakeðja í vélum úr sögunni.

Í þessari nýj Qoros-vél eru engir knastásar heldur búnaður við hvern ventil sem fær tölvuboð um það hvenær ventillinn skuli opnast og hversu lengi (sjá hér). Með þessum búnaði er hægt að stýra opnunar- og lokunartíma ventlanna margfalt nákvæmar en knastásinn megnar. Annmarki venjulega knastássins er sá að vegna beintengingar hans við snúning sveifarássins getur hann ekki flýtt eða seinkað opnunartímum ventlanna eftir því hversu hratt vélin gengur né heldur út frá brunahraða eldsneytisins (oktantölu). Nýi tölvustýrði búnaðurinn getur það hins vegar auðveldlega sem þýðir að eldsneytisbruninn í vélinni getur alltaf verið á hárréttum tíma hvort heldur sem vélin  lullar í hægagangi eða er keyrð á fullum snúningi. Hún verður miklu sveigjanlegri í notkun og þar með mun orkunýtnari og sparneytnari en jafnframt aflmeiri, svo framarlega sem tölvustýribúnaðurinn helst í lagi.

Á útlensku heitir knastásinn camshaft eða bara cam og vél án knastáss ætti þá að kallast camfree engine. En þar sem bíllinn með þessari nýju vél heitir Qoros er vélin nefnd „Qamfree engine.“ Hún er tveggja lítra að rúmtaki og fjögurra strokka. Tæknilega séð kemur hún hins vegar frá tækniyrirtæki ofurbílahönnuðarins og -smiðsins Christian von Koenigsegg á Skáni í Svíþjóð sem heitir FreeValve.