SAIC með nýjan Rover 75

http://www.fib.is/myndir/Rover75coupe04.jpg
Rover 75 Coupé.

Bílastórfyrirtækið SAIC í Kína sem keypti þrotabú MG-Rover í Bretlandi í fyrra ætlar að hefja sölu á nýrri gerð Rover 75 á næsta ári. Nýi bíllinn verður framleiddur í Uxbridge í N. Englandi. Ekki er þó víst að SAIC megi nota nafnið Rover og fleiri gamalgróin bresk bílavörumerki því að BMW í Þýskalandi á nefnilega Rover, MG og fleiri bresk merki. Samningaviðræður milli SAIC og BMW um málið standa yfir.

Motormagasinet greinir frá þessu og hefur upplýsingar sínar frá stóru hollensku bílainnflutnings- og sölufyrirtæki sem rekur öflug útibú utan heimalandsins, m.a.  í Þýskalandi. Motormagasinet segir fleira vera í pípunum hjá SAIC því að fyrirtækið hafi nýlega eignast 51% hlut í kóreska bílaframleiðslufyrirtækinu SsangYong og hafi auk þess gert samstarfssamning við bæði General Motors og Volkswagen og þannig tryggt sér aðgang að bæði þekkingu og tæknibúnaði í hæsta gæðaflokki.

SAIC stefnir að því að þróa áfram eigin bíla auk þess að byggja bíla fyrir aðra framleiðendur. Flest bendur til þess nú að fyrsti SAIC-bíllinn sem kemur á markað í Evrópu verði hin nýi Rover 75. Síðar er von á bíl sem líklegast verður byggður í Kína en undirvagn bílsins og hins nýja Rover 75 verður að líkindum sá sami. Áætlanir SAIC gera ráð fyrir að árið 2010 verði framleiddir á vegum fyrirtækisins 200 þúsund bílar á ári í Kína. Af þeim verði 50 þúsund seldir í Evrópu og komi til viðbótar við Rover framleiðsluna í Bretlandi. SAIC sér fyrir sér góðan markað fyrir bíla sína í Bretlandi og á Spáni og Ítalíu þar sem Rover og fleiri breskir bílaframleiðendur áttu áður og eiga sterka fótfestu og nokkuð væna markaðshlutdeild.