Sala á rafbílum í Danmörku hefur stöðvast

Það var mikill almennur áhugi fyrir rafbílum í Danmörku í upphafi ársins þegar Mitsubishi, Peugeot og Citroën settu rafbílana Imiev, Ion og C-Zero,  á almennan danskan bílamarkað. Í raun var um sama bílinn að ræða, Mitsubishi iMIEV, sem falboðinn var undir þremur vörumerkjum.

IMIEV er fyrsti rafbíllinn sem kalla má alvöru bíl. Hann hefur verið árekstursprófaður af EuroNCAP og stóðst prófið fyllilega. Það eina sem segja má að sé öðruvísi er drægið á rafhleðslunni. Það er verulega minna en drægi sambærilegs smábíls á fullum eldsneytistanki og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Áhugi almennings fyrir rafbílunum var umtalsverður þegar þeir voru markaðssettir í janúarmánuði sl. Sala fór vel af stað og  rúmlega 200 bílar voru nýskráðir í janúar. En síðan hefur hún koðnað niður og síðustu tvo mánuði hefur hún nánast engin verið.

En Ekki er þó allt sem sýnist af sölutölunum, því þeir voru sárafáir einstaklingarnir og fáein sveitarfélög sem fengu sér rafbíla. Sá aðili sem langflesta bílana keypti var fyrirtæki sem heitir ChooseEV til nota í viðamikilli tilraun og rannsókn sem nefnist Test en Elbil, sem útleggst prófaðu rafbíl. Síðan hefur sala á rafbílum í Danmörku nánast stöðvast. Einungis níu rafbílar hafa selst í landinu í júlí og ágúst; fimm af þeim eru Citroen, fjórir Mitsubishi en enginn Peugeot. Heildarsala á þessu ári, sem átti að verða rafbílaárið í Danmörku, nær ekki 300 bílum. Það hlýtur að vera þeim vonbrigði sem spáðu mörg þúsund bíla sölu á árinu.

Danskir bílakaupendur eru almennt á þeirri skoðun að rafbílarnir séu allt of dýrir. Þrátt fyrir að ekkert af þeim ofurháu skráningargjöldum sem leggjast á nýja bíla í Danmörku leggist á rafbíla kostar umræddir bílar (einu rafbílarnir sem í raun og veru eru á danska markaðinum í augnablikinu) um það bil 280 þúsund DKR stykkið eða rúmar 6 milljónir ísl. kr. Það er um það bil þrefalt verð sambærilegs bensín- eða dísilfólksbíls sem þó þarf að bera hin háu skráningargjöld.

Til samanburðar þá kemur Nissan Leaf, sem er miklu stærri bíll en umræddir smábílar, til með að kosta  um 300 þúsund dkr. (6,45 milljónir ísl. kr.). Renault Fluence ZE verður seldur á rafgeymanna og kosta 4,5 millj. ísl. kr. Rafgeymana þarf síðan að leigja. Báðir þessir framannefndu bílar áttu reyndar að vera löngu komnir á markað í Danmörku en hefur seinkað æ ofan í æ. Samkvæmt nýjustu tilkynningum er Fluence ZE væntanlegur rétt fyrir jólin og Leaf í ársbyrjun 2012.

En það er víðar í Evrópu tregða í sölunni á rafbílum. Á fyrri helmingi þessa árs voru nýskráningar rafbíla flestar í Þýskalandi eða 1.020. Í Noregi eru þær 850.
Í Vestur-Evrópu seldust alls 5.222 rafbílar sem er um það bil 0,7 prómill markaðshlutdeild.

Markaðsrannsóknafyrirtæki sem heitir Jato Dynamics hefur metið hverskonar ríkisstuðning vegna kaupa á rafbílum. Niðurstaðan er sú að slíkur stuðningur sé mestur í Danmörku eða rúmar 3,3 milljónír ísl kr. á hvern bíl. Í öðrum Evrópulöndum sé stuðningurinn að meðaltali tæplega 800 þús. ísl. kr. Minnstur sé hann í Þýskalandi, tæplega 54 þús. ísl. kr. á hvern rafbíl.