Sala Toyotabíla í Kína dalar

Sala Toyotabíla í Kína í ágúst var 15,1% minni en á sama tíma í fyrra. Þá varð salan í júlí 5% minni í júlí í fyrra. Í nýliðnum ágústmánuði seldust 75,300 Toyotabílar í Kína. Þetta kemur fram í Reutersfrétt og er þar haft eftir upplýsingafulltrúa Toyota í Beijing.

Upplýsingafulltrúinn segir að samdráttur tvo mánuði í röð sé svosem ekkert sérstakt áhyggjuefni enda séu ástæðurnar ekki minnkandi vinsældir Toyotabíla í Kína heldur séu þær að hluta tæknilegs eðlis. Í kjölfar flóðahamfaranna í Japan í mars 2011 hafi þurft að hægja á bæði framleiðslu og dreifingu bíla. Þegar svo ástandið var um það bil komið í samt lag aftur í júlí og ágúst 2011 hafi aftur verið hægt að demba bílum inn á Kínamarkaðinn sem tekið hafi þeim fagnandi og Toyotabílar selst sem aldrei fyrr og óvenjulega mikið. Minni sala í júlí og ágúst á þessu ári sé ekkert óeðlileg og  sýni einungis að markaðurinn hafi jafnað sig aftur.

Áætlanir Toyota gera ráð fyrir milljón bíla sölu í Kína á árinu og fjölmiðlafulltrúinn segir ekkert benda til annars en að það muni ganga eftir. Árið 2011 jókst salan um 4,4% frá árinu á undan. Alls seldust 883.400 Toyotur í Kína 2011.