Sálrænn Kia

Kia Soul er bíll sem sérstaklega átti að höfða til ungra Bandaríkjamanna en sló í gegn hjá þeim eldri, er nú á leið til Evrópu. Bíllinn, sem er fjölnotabíll af minni meðalstærð og byggður á grunni Kia Ceed, verður Evrópufrumsýndur á Frankfurt bílasýningunni í næsta mánuði. Hann kemur síðan á almennan bílamarkað álfunnar upp úr næstu áramótum.

Kia Soul er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð. Það þýðir að auðvelt er að stíga inn og út úr honum og sætin eru há og útsýni gott. Af því sem sjá má á evrópskum heimasíðum um bílinn er því lofað að hann verði vandaður og vel frá genginn að utan og innan og aksturseiginleikar með því besta sem býðst í þessum flokki bíla. Ellefu meginlitir verða að velja í milli og auk þess þrír sérlitir fyrir toppinn sérstaklega.

Tveir Kia Soul bílar verða til sýnis í Frankfurt og verður annar þeirra búinn sérstökum „jepplinga-skrautpakka“ sem m.a. inniheldur brettakanta, hlífðarplast á hliðum, sérlakkaða stuðara með einhverju sem kallað er svart píanólakk, sérlit á toppi og toppgrindarboga. Því er heitið að kaupendur Soul bíla fái úr miklu slíku að velja, auk ýmiss aukabúnaðar– meira en nokkursstaðar annarsstaðar er í boði.

Tvennskonar vélar verða í boði í Kia Soul; annarsvegar 1,6 l bensínvél og hins vegar jafnstór dísilvél. Sex gíra handskipting er staðalbúnaður en sex hraða sjálfskipting verður einnig fáanleg.