Samdráttur hjá VW í Evrópu

Salan á Volkswagenbílum í Evrópu – heimamarkaði framleiðandans - dróst saman á fyrstu þremur mánuðum ársins um 0,5% miðað við sama tímabil í fyrra.

Financial Times greinir frá þessu og telur samdráttinn vera viðbrögð evrópskra neytenda við útblásturssvindli VW. En þótt Volkswagen sé enn söluhæsti bílaframleiðandi álfunnar (420 þús. bílar) er hann sá eini þeirra tíu söluhæstu sem samdráttur mælist hjá á tímabilinu janúar-mars. Hinir níu juku allir markaðshlutdeild sína og Opel (General Motors) þeirra mest eða um 11,1 prósent (265 þús. bíla). Aukning Ford á tímabilinu var 7,8 prósent (281 þús. bílar). Í heild jókst fjöldi nýskráðra fólksbíla í Evrópu miðað við jan.-mars í fyrra um 8,2 prósent og fór í 3,8 milljón bíla.

Samdrátturinn hjá Volkswagen er minni en reiknað hafði verið með í kjölfar dísil-pústhneyslisins. Markaðsfræðingar höfðu spáð a.m.k. 2,4 prósenta samanlögðum samdrætti í nýskráningum allra vörumerkja VW samsteypunnar. Hann er hins vegar mun minni eða um eitt prósent og eins og markaðsfræðimaður segir við Financial Times: „...og það sem meira er, þeir hafa ekki hafið verðstríð.

Á heimsvísu er samdráttur VW samsteypunnar fyrstu þrjá mánuði ársins 1,3 prósent og er ekki nema að litlu leyti rakinn til dísil-pústhneykslisins heldur að mestu til bágs efnahagsástands í Rússlandi og S. Ameríku. En stærsti markaður Volkswagen er Kína og þar gengur VW vel. Salan jókst í jan.-mars um 6,5 prósent og fór í 722.800 bíla. Þar hefur „Dísilgate“ hneykslið engin áhrif haft.