Samdráttur í umferð á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin í nýliðnum janúarmánuði dróst saman um 1,6 prósent frá sama mánuði fyrir árið síðan. Þetta er þó mun minni samdráttur en á Hringveginum í janúar. Líklegt er að veður hafi mun minni áhrif á höfuðborgarsvæðinu enda var vegum lokað víða á Hringvegi um skemmri og lengri tíma í mánuðinum.

Eins og vænta mátti dróst umferðin saman í nýliðnum janúar á höfuðborgarsvæðinu, borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Samdrátturinn var þó mun minni en á Hringvegi eða 1,6% borið saman við tæp 8% á Hringvegi, sjá fyrri frétt þar um.

Umferð dróst saman í öllum mælisniðum en mest í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi, rétt sunnan Kópavogslækjar, en þar mældist tæplega 3% samdráttur miðað við janúar á síðasta ári. 

Mest ekið á föstudögum – minnst á miðvikudögum

Það var svolítið óhefðbundin hegðun eftir vikudögum því umferðin jókst á mánudögum og þriðjudögum eða um 2,5% annarsvegar og 6,7% hinsvegar en dróst saman á öðrum dögum.  Mest dróst umferðin saman á laugardögum eða um 6,6%.

Mest var ekið á föstudögum í janúar en minnst á sunnudögum.  Á virkum dögum var minnst ekið á miðvikudögum.