Sameina krafta sína um endingu rafgeyma

Sala á raf- og tvinnbílum hefur tekið mikinn kipp á síðustu tveimur árum og þá alveg sérstaklega í Evrópu. Markaðir í Kína og Norður-Ameríku hafa líka tekið við sér en á árinu 2020 nam salan á þessum bílum 4,6% af heildarsölu. Í Evrópu náði markaðshlutdeild þeirra að vera 10%. Alþjóða orkumálastofnunin spáir því að markaðshlutdeild þeirra gæti orðið á milli 10,4% og 19% árið 2025.

Fram hefur komið að mörg lönd hafa áform um að hætta sölu á bensín- og dísilbílum í áföngum á næstu 10-20 árum. Það kom síðan skýrt fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í síðasta mánuði á meðal margra þjóða og bílaframleiðenda að hætta framleiðslu á jarðefnaeldsneytisknúnum farartækjum fyrir árið 2040.

Töluverðar framfarir hafa orðið í framleiðslu á raf- og tvinnbílum. Spurningar hafa hins vegar vaknað hversu hratt tækninýjungar hafa orðið í framleiðslu á rafhlöðum þessara faratækja. Fram að þessu hafa neytendur ekki getað nálgast áreiðanlegar upplýsingar um hversu vel rafhlöður farartækja munu standa sig með tímanum. Nú er bígerð tillaga til að tryggja lágmarksendingu rafgeyma í raf- og tengiltvinnbílum sem samþykkt er af World Forum for Harmonization of Vehicle Regulations (WP.29) . Átakið er stutt af fjölmörgum ríkjum og þar á meðal Evrópusambandinu.

Nýju ákvæðin, þróuð sem alþjóðleg tæknireglugerð Sameinuðu þjóðanna (GTR), munu krefjast þess að framleiðendur votti að rafhlöður sem settar eru í rafknúin farartæki þeirra missi minna en 20% af upphaflegri afkastagetu á 5 árum eða 100.000 km og minna en 30% á 8 árum eða 160.000 km.

Þetta myndi koma í veg fyrir notkun á lággæða rafhlöðum og tryggja að aðeins endingargóðar rafhlöður séu settar í rafbíla. Þetta er mikilvægt til að auka traust neytenda og til að bæta umhverfisframmistöðu rafbíla umfram litla losun. Að tryggja að hver rafhlaða endist lengur myndi hjálpa til við að draga úr þrýstingi á eftirspurn á mikilvæg hráefni sem þarf til framleiðslu þeirra og draga úr sóun frá notuðum rafhlöðum.

André Rijnders, formaður vinnuhópsins um mengun og orku (GRPE), sem þróaði þessa tillögu sagði að samkvæmt fyrirhugaðri reglugerð verða nákvæmar upplýsingar um ástand og eftirstöðvar rafhlöðunnar gerðar aðgengilegar eiganda ökutækisins.

Eigandi hvers ökutækis verður að tilkynna ástand rafhlöðu til viðkomandi lands- eða svæðisyfirvalda með gagnaflutningi eða á annan hátt sem ákvarðast skal eftir staðbundnum aðstæðum.

Samþykkt tillaga verður borin undir atkvæði á fundi WP.29 í mars 2022. Lönd sem greiða atkvæði með nýja lagatextanum þurfa að innleiða hann í lands-/svæðislöggjöf sína með sérstakri tímalínu fyrir gildistöku sem gæti komið til framkvæmda árið 2023.