Samgöngustofa ætlar ekki að svipta bílaleiguna Procar starfsleyfi

Samgöngustofa ætlar ekki að svipta bílaleiguna Procar starfsleyfi. Tillögur fyrirtækisins að úrbótum voru taldar fullnægjandi. Lögreglurannsókn á málinu er komin til héraðssaksóknara vegna umfangs. Þetta kom fram í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins.

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur upplýsti um umfangsmikið svindl bílaleigunnar Procar í febrúar. Gögn sýndu að átt hefði verið við kílómetrastöðu bíla áður en þeir voru seldir á að minnsta kosti fimm ára tímabili. Procar gekkst við brotunum og hét því að bjóða þeim bætur sem voru blekktir.  

Síðan málið kom upp hefur viðbragðsleysi vegna þess verið gagnrýnt en það heyrir undir Samgöngustofu. Í fréttum RÚV í lok apríl sagði Þórólfur Árnason, forstjóri stofnunarinnar að reyndust brotin jafn alvarleg og þau litu út fyrir að vera, yrði gripið til leyfissviptingar.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur ítrekað komið því á framfæri við lögreglu og Samgöngustofu að málið þoli ekki frekari tafir til að verja rannsóknarhagsmuni, koma verði í veg fyrir samkeppnisbrot og vernda neytendur.

Í grein sem Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, skrifaði í síðasta FÍB-blaði sagði hann að Procar-svindlið hafi dregið úr trausti neytenda í viðskiptum með notuð ökutæki og skaðað neytendur og fyrirtæki fjárhagslega. Hann sagði ennfremur að á markaðnum eru ökutæki með skráninguna ,,bílaleiga“ í eigenda- eða umráðaferli mun lakari og verðminni vara en áður.

Fram kom í fréttatíma RÚV að Samgöngustofa upplýsti forsvarsmenn Procar um niðurstöðu sína í málinu í byrjun maí. Gestur Gunnarsson, lögmaður hjá Draupni sem fer með mál Procar, segir að Samgöngustofa telji tillögur bílaleigunnar um úrbætur fullnægjandi og því verði ekki aðhafst frekar í þessu máli að svo stöddu.

Gestur segir að það sem Procar hafi gert utan þess að bjóða fólki bætur sé að framvísa aksturssögu til kaupenda og taka upp verklagsreglur til að tryggja að mál sem þetta komi ekki upp aftur og að lögum sé fylgt. Bæturnar byggjast á niðurstöðu óháðs matsmanns sem var fenginn til að meta tjón af því að átt hefði verið við akstursmæla.