Samkeppni á rafbílamarkaði

Fréttavefur Reuters greinir frá því að General Motors ætli að verðleggja nýja og umhverfismilda Chevrolet Volt rafbílinn sinn hóflega á Kínamarkaði. Chevrolet Volt er væntanlegur á Bandaríkjamarkað í byrjun næsta árs og gefið hefur verið út verð á honum þar sem er sannarlega ekki lágt – 41 þúsund dollarar sem er um 8 þúsund dollurum hærra en á Nissan Leaf - ámóta stór bíl - á að kosta.

Kevin Wale forstjóri GM í Kína segir við fréttamann Reuters, að Chevrolet Volt verði markaðssettur í Kína á síðari helmingi ársins 2011. Hann var ófáanlegur að nefna hvert verðið yrði þar, sagði aðeins að það yrði gefið út þegar bíllinn kemur á kínverska sölustaði og fyrr ekki.

,En ég held að það verði samkeppnishæftI,“ sagði Wale. Hann sagði að markassetningin í Kína héldist í hendur við aðgerðir Kínastjórnar til að auka veg rafbíla og koma upp innviðum fyrir þá, eins og hleðslutenglum og rafgeymastöðvum. Í þetta ætlar ríkisstjórnin að setja fjármagn sem svarar til  14,7 milljarða dollara næstu tíu árin.

Wale sagði að Kína væri það land sem hvað mesta þörf hefði fyrir rafvæðingu bílaumferðarinnar og að stjórnvöld væru mjög sama sinnis og vildu stuðla sem mest og best að því að það takist. „Við viljum vera þátttakendur í því,“ sagði Wale.

LJóst þykir að Chevrolet Volt muni mæta mjög harðri samkeppni um hylli kínverskra bílakaupenda því að margir innlendir bílaframleiðendur geta þegar boðið mikið úrval af rafbílum, stórum sem smáum á mun hagstæðara verði en GM mun líklega geta boðið. Kínverska bílaframleiðslufyrirtækið BYD, sem að hluta er í eigu bandaríska milljarðamæringsins Warren Buffett hefur þegar lýst því yfir að það sé tilbúið til að demba bílum, sem eru svipaðir að stærð og gerð og Chevrolet Volt og Nissan Leaf, í stórum stíl á markað bæði í Kína og í Bandaríkjunum og muni gera það þegar Volt og Leaf bílarnir koma í sölu í byrjun komandi árs. Myndin með þessari frétt er af BYD rafbíl.