Samkomulag um að uppfæra samgöngusáttmálann

Ríkið og sex sveitarfélög sem standa að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hafa ákveðið að hefja undirbúning að því að uppfæra sáttmálann og gera viðauka við hann.

Í tilkynningu frá innviðarráðuneytinu kemur fram að verkáætlun um uppfærsluna var samþykkt á fundi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórum sveitarfélaganna, borgarstjóra og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir helgi. Gert er ráð fyrir að hægt verði að undirrita viðauka við samgöngusáttmálann í sumar.

Það markaði tímamót þegar ríki og öll sveitarfélögin á svæðinu staðfestu þann 26. september 2019 sameiginlega framtíðarsýn og markmið fyrir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með undirritun samgöngusáttmálans. Um er að ræða mestu fjárfestingar í samgönguinnviðum í sögu svæðisins og uppbyggingin hugsuð fyrir alla samgöngumáta.

Í tilkynningunni kemur ennfram fram að samgöngusáttmálinn hefur þegar bætt samgöngur á svæðinu og aukið greiðleika þeirra. Mikilvægar framkvæmdir hafa klárast, s.s. á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, Suðurlandsvegi milli Vesturlandsvegar og Hádegismóa og á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Þá hafa einnig verið lagðir rúmlega 13 km af hjólastígum. Þá er stefnt að því að framkvæmdir við Fossvogsbrú hefjist á þessu ári.

Nýverið kom fram í máli bæjarstjóra Kópavogs og hjá fleirum sem vilja endurmeta áætlanir um kostnað við bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Í þeirri umræðu kom fram að framkvæmdaráætlun samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sé þegar kominn 50 milljarða fram úr áætlun þótt framkvæmdir sé vart hafnar.

Bent var á að að nauðsynlegt sé að þeir sem að samgöngusáttmálanum koma fari yfir stöðuna í ljósi þess hversu langt framkvæmdir eru komnar fram úr kostnaðaráætlun. Um gríðarlega mikilvæga framkvæm væri um að ræða og því mikilvægt að vanda til verka.

Eins og áður hefur komið fram er verkefnið samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er hins vegar ábyrgðahluti þeirra sem að sáttmálanum standa og veita honum fjármagn úr vösum skattgreiðenda að staldra nú við og endurmeta áætlanir.