Samruni Fiat Chrysler og PSA formlega genginn í gegn

Formlega var gengið frá því í morgun að ítalska-bandaríska samsteypan Fiat-Chrysler og PSA, sem framleiðir Peugeot-bifreiðar, væru búin að sameinast. Viðræður fyrirtækjanna um sameiningu er í raun búin að standa yfir allt þetta ár og lauk með undirskrift í morgun.

Ferlið í heild sinni gæti tekið á annað ár þegar allt tengt samrunanum er gengið í gegn. Nýtt nafn á fyrirtækinu hefur ekki verið gert opinbert en forsvarsmenn fyrirtækjana segja það verða gert á fyrstu mánuðum nýs árs.

Með þessum samruna verður þetta nýja fyrirtæki fjórði stærsti bílaframleiðandi í heiminum. Á síðasta ári seldi Fiat-Chrysler 4,6 milljónir bíla og Peugeot 3,9 milljónir bíla. Stærstu markaðssvæði fyrirtækjanna hafa verið í Evrópu, Bandaríkjunum og S-Ameríku.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna segja  þessa sameiningu heillaspor og gefa um leið mörg tækifæri inn í framtíðina. Fram kemur í samningnum að efla á framleiðslu rafknúinna ökutækja, þar liggja tækifæri og verður lögð þung áhersla á þann framleiðsluþátt.