Samstaða einkenndi fund um samgöngumál á Vesturlandi
Á fjölmennum íbúafundi á Akranesi í gærkvöldi var þess krafist að ráðist yrði strax í bráðabirgðaviðgerðir á Vesturlandsvegi um Kjalarnes og vegurinn verði tvöfaldaður sem fyrst. Einn frummælanda á fundinum segir veginn hættulegan og að þolinmæði íbúanna sé á þrotum. Það var Akraneskaupstaður sem stóð fyrir íbúafundinum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráherra, og Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, sátu fundinn.
Undirskriftalisti með nöfnum 5.500 manns til stuðnings umbótum á veginum var lagður fram á fundinum. Einnig komu fram áskoranir frá sveitarfélögum og fyrirtækjum á Vesturlandi.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fór yfir framtíðaráform ríkisstjórnar í samgöngumálum en þau skipa að hans sögn stóran sess í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnar. Þá fór hann inn á hvað væri búið að leggja til vegaframkvæmda á Vesturlandi á síðustu árum og hvað væri framundan. Hann tilkynnti formlega að gjaldtöku yrði hætt í Hvalfjarðargöngunum á þessu ári og að ef gjaldtaka ætti að halda áfram þá yrði það skoðað út frá jafnréttissjónarmiði hvað varðar aðrar stofnleiðir til Höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningur að samgönguáætlun til 12 ára er í bígerð og mun líta dagsins ljós í lok þess árs.
„Einbreiður, mjór, óupplýstur, ótal gatnamót, djúp hjólför, há tíðni slysa og óhappa, vegabætur vanræktar árum og áratugum saman, fjárveitingar brandari og veðravíti,“ sagði Bjarnheiður Halldóttir í erindi sínu sem hún flutti fyrir hönd baráttuhóps um öruggt Kjalarnes. Bjarnheiður færði ráðherra að lokinni framsögu undirskriftarlista þar sem 5.500 manns höfðu skrifað undir áskorun til samgönguyfirvalda um bættar samgöngur á Kjalarnesi.
Í áskorun sem lesin var upp á fundinum segir orðrétt. „Opinn fundur um samgöngumál á Vesturlandi skorar á samgönguyfirvöld og Alþingi að bregðast tafarlaust við ótryggu og hættulegu ástandi Vesturlandsvegar á Kjalarnesi með nauðsynlegum framkvæmdum og tryggi jafnframt að tvöföldun Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum til Reykjavíkur verði lokið innan þriggja ára. Skoðaðar verði allar leiðir sem flýtt geti þeim framkvæmdum enn frekar til að auka umferðaröryggi og greiða för.“
Á þessum kröftugum orðum sleit Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi fundi. Gestir fundarins risu allir úr sætunum og tóku undir áskorunina sem Sævar Freyr afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Mynd: Fundargestir risu úr sætum og tóku undir áskorun til samgönguyfirvalda. Ljósmynd: Jónas Ottósson sem er eign Akraneskaupstaðar.