Samstaða - ný regnhlífarsamtök áhugafólks um örugga umferð

http://www.fib.is/myndir/steini.jpg
Steinþór Jónsson.

Steinþór Jónsson hótelstjóri í Keflavík og stjórnarmaður í FÍB var á sínum tíma hvatamaður að stofnun áhugahóps um örugga Reykjanesbraut. Reykjanesbraut var á þeim tíma mikill slysavegur og slæm umferðarslys þar allt of algeng. En eftir að sá hluti leiðarinnar sem nú hefur verið tvöfaldaður var opnaður umferð fyrir tveimur árum hefur ekki orðið dauðaslys á Reykjanesbraut. Áður urðu allt að sex dauðaslys árlega á brautinni.

Steinþór ritaði grein í Morgunblaðið nýlega. Í henni hvetur hann til þess að stofnuð verði eins konar regnhlífarsamtök samskonar áhugahópa um úrbætur á íslensku vegakerfi allstaðar á Íslandi og leggur til að opnað verði sérstakt vefsvæði sem verði vettvangur og fundarstaður áhugafólks um örugga umferð og vegabætur sem stuðla að öruggari umferð.

Þetta vefsvæði er nú í vinnslu og er slóðin þangað http://www.fib.is/samstada/ Á þessu nýja vefsvæði er hægt að lesa ofannefnda grein Steinþórs. Spjallrásir eru í vinnslu og munu verða virkar á næstunni ein af annarri.

Allt ábyrgt fólk hlýtur að fagna frumkvæði Steinþórs þar sem dauði og örkuml fjölda fólks á hverju ári er alls ekki sjálfsagður fylgifiskur og fórnarkostnaður umferðarinnar. Fjarri því. Umferðarmál og öruggari vegir eru ekki einkamál eins eða neins, stjórnmálamanna, stofnana, einstakra landshluta eða byggðarlaga heldur sameiginlegt mál okkar allra sem á landinu búum. Íslenskir bifreiðaeigendur greiða gríðarlega háa skatta og gjöld í ríkissjóð af ökutækjum sínum og allri notkun þeirra en of lítill hluti þess fjár fer til endurbóta á vegakerfinu. Íslendingar þurfa ekki og eiga ekki að sætta sig við slæma og hættulega vegi.

Tökum því undir herhvöt Steinþórs því eins og hann segir:

* Með SAMSTÖÐU getum við virkjað grasrótina innan hvers baráttuhóps og stuðlað þannig að bættu umferðaröryggi á landinu öllu.
* Með SAMSTÖÐU getum við með einni rödd haft áhrif á stjórnvöld á hverjum tíma hvað varðar vegabætur, löggæslu og almennan áróður.
* Með SAMSTÖÐU getum við haft áhrif á eftirlit og viðhald ökutækja með því markmiði að fækka alvarlegum slysum.
* Með SAMSTÖÐU getum við haft áhrif á okkur sjálf, ökumenn þessa lands, til að minna okkur á þá ábyrgð sem á okkur hvílir daglega í umferðinni.
* Með SAMSTÖÐU getum við náð þeim árangri að gera Ísland að slysalausu landi í umferðinni.