Samstarf GM og PSA

Nýlega greindum við frá viðræðum milli General Motors og PSA (Peugeot/Citroen) um samstarf. Nú er það orðið að veruleika – samningar um það voru undirritaðir í gær af Dan Akerson forstjóra GM og Philippe Varin stjórnarformanni PSA.. 

Samstarfið snýst um tækni og vélar og fyrsti sameiginlegi bíllinn mun koma á markað 2016. Dan Akerson segir að samstarfið skapi báðum aðilum ótrúlega möguleika og muni spara gríðarlegar fjárhæðir á hverju ári.

Tilgangurinn hjá bæði GM og PSA er að ná fram sparnaði í bílaframleiðslunni í Evrópu. Talsmenn PSA og reyndar Renault líka, hafa margítrekað að bílaframleiðslan í Frakklandi sé allt of kostnaðarsöm. Þá hefur GM átt í miklum vanda með Opel sem rekið er með miklu tapi árin út og árin inn. Jafnframt hefur markaðssókn GM með smábíla sína  frá Kóreu alls ekki tekist sem skyldi. Með samstarfssamningnum væntir GM efalaust betra framtíðargengis í Evrópu og PSA væntir vafalítið þess að eiga greiðari leið inn á kínverska bílamarkaðinn.

Samstarf GM og PSA er einkum tvíþætt: Báðir aðilar nýta sér grunnplötur, vélar og íhluti hvors annars. Jafnframt mega báðir aðilar halda áfram að selja þá bíla sem þegar eru á markaði enda þótt sumir þeirra eigi í harðri innbyrðis samkeppni. Jafnframt munu í tímans rás verða til bílar sem að miklu leyti verða þeir sömu hvort sem nafnið á þeim verður GM-, eða þá Citroen-tengt.

Í öðru lagi verður stofnað nýtt fyrirtæki sem sér um að kaupa inn hverskonar íhluti í nýja BM og PSA-bíla, ekki síst gírkassa, sjálfskiptingar og vélar og fá þannig betri kjör og magnafslætti. Loks eignast GM sjö prósent hlut í PSA.