Samstarf VW og Suzuki trosnar

Reuters fréttastofan greinir frá því í morgun að bakslag sé komið í samvinnu Suzuki  Motor Corp. og Volkswagen. Einn af æðstu stjórnendum Suzuki segir að endurskoða beri samvinnusamninga fyrirtækjanna sem undirritaðir voru í desember 2009, eftir að Volkswagen hafði keypt 20 prósenta hlut í Suzuki fyrir 2,5 milljarða dollara.

 Bílaspekingar töldu ávinning Volkswagen fyrst og fremst verða þann að fá aðgang að tækni tengdri framleiðslu smábíla en þar er Suzuki mjög framarlega. Suzuki fengi í staðinn aðgang að tvinntækni og véltækni VW sem líklega yrði ofviða Suzuki að þróa upp á eigin spýtur sökum kostnaðar.

En á þeim rúmlega 18 mánuðum sem liðnir eru frá kaupunum hefur sáralítið gerst í samvinnumálunum og einn fjögurra nýráðinna framkvæmdastjóra Suzuki sagði í fréttaviðtali í morgun að nú yrðu menn að snúa aftur að teikniborðinu og festa á ný  niður á blað hvernig tæknisamvinnan og valdahlutföllin skulu vera. Hjá Suzuki hugsuðu menn sér samvinnu jafnrétthárra aðila en Volkswagen hefði haft annað í hyggju – hrein yfirráð yfir Suzuki sem er fjórði stærsti bílaframleiðandi Japans.

Volkswagen hefur náð mjög góðum tökum á framleiðslu sparneytinna dísilvéla og eðlilegt hefði verið að Suzuki leitaði þangað um dísilvélar í Suzukibíla á Evrópumarkað. Því þótti það nokkuð sérkennilegt að þegar Suzuki nýlega tilkynnti um kaupsamning við Fiat á Ítalíu á 1,6 l dísilvélum fyrir Swift o.fl. bíla sem framleiddir eru í Suzukiverksmiðjunni í Ungverjalandi. Yasuhito Harayama, einn fjögurra nýráðinna framkvæmdastjóra Suzuki sagði að þessi vélakaup sýndu að Suzuki væri ekki á neinn hátt háð Volkswagen.