Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda

Sáttmáli um gagnkvæman skilning atvinnubílstjóra og hjólreiðafólks í umferðinni kom út í maí 2019. Markmið sáttmálans er að auka gagnkvæman skilning og koma í veg fyrir slys og tryggja öryggi allra vegfarenda.

Samhliða fjölgun hjólreiðafólks undanfarin ár hefur hjólreiðaslysum einnig fjölgað, svo þörfin fyrir sátt og samlyndi ólíkra hópa í umferðinni hefur aldrei verið brýnni. Sáttmálinn inniheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra eins og til dæmis um blinda svæði bílstjórans og hættuna fyrir hjólreiðafólk að fara yfir gatnamót.

Fjölmörg fyrirtæki og hagaðilar hafa nú þegar innleitt sáttmálann og notað við fræðslu, þjálfun og öryggismiðlun sinna starfsmanna. Nú hefur sáttmálinn verið gefinn út á þremur tungumálum, auk íslensku á pólsku og ensku.

Sáttmálinn var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun, Landssamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar og Siggi danski atvinnubílstjóri kom einnig að undirbúningi hans.

Það er von þeirra aðila sem koma að sáttmálanum að hann komi að góðum notum og verði sýnilegur sem víðast. Aukið öryggi í umferðinni er hagur okkar allra.

Sáttmálana má nálgast hér að neðan.

Íslenska

Enska

Pólska