Sáttmáli nær tvöfalt dýrari – framkvæmdum jafnvel frestað

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að hann vilji endurskoða Samgöngusáttmálann en allar fjárhagslegar forsendur skorti fyrir framkvæmdinni í dag. Áætlaður kostnaður við verk­efni Sam­göngusátt­mál­ans hef­ur nær tvö­fald­ast frá því sem gert var ráð fyr­ir og er nú 300 millj­arðar í stað þeirra 160 millj­arða sem upp­reiknuð kostnaðaráætl­un ger­ir ráð fyr­ir. Upp­haf­leg áætl­un var hins veg­ar upp á 120 millj­arða. Bjarni seg­ir þar að eft­ir því sem verk­efn­inu hafi undið fram hafi komið bet­ur í ljós að upp­haf­leg­ar áætlan­ir hafi verið stór­lega van­metn­ar og virðist það eiga við um nær alla þætti sátt­mál­ans.

Kostnaður sé verulega vanáætlaður

Í aðsendri greininni í Morgunblaðinu í dag gagnrýnir fjármálaráðherra Samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkis. Hann segir meðal annars að kostnaður sé verulega vanáætlaður og tekur sem dæmi Arnarnesveg, sem átti að kosta 2,2 milljarða samkvæmt upprunalegum áætlunum. Verkið var boðið út fyrir 7,2 milljarða. Áætlaður heildarkostnaður við Samgöngusáttmálann miðað við vísitölu ársins 2023 eru 160 milljarðar. Búast má við að þessi kostnaður endi í 260 milljörðum - sé Keldnaland tekið með í reikninginn - en það er mikilvægur hluti af framlagi ríkisins til verkefnisins.

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, sem hefur yfirumsjón með verkefninu segir í samtali við ríkisútvarpið að til greina komi að senka framkvæmdum úr Samgöngusáttmálanum. Davíð segir allt satt og rétt sem kemur fram í grein fjármálaráðherra. Það liggur fyrir annars vegar að verðlag hefur hækkað mikið og hitt að upphaflegar áætlanir samgöngusáttmálans frá 2019 voru verulega vanáætlaðar, eða nokkuð vanáætlaðar

Þegar málið er skoðað undirrituðu 2019 stjórnvöld og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, tímamótasamkomulag sem fól í sér metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Markmiðið var ennfremur að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.

Í samningnum kom fram að á næstu 15 árum verður yrði ráðist í einar umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu, sem að óbreyttum framkvæmdahraða tækju allt að 50 ár. Mengun vegna svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda hefur stóraukist. Ef fram heldur sem horfir og ekkert yrði að gert mun bílaumferð aukast um að minnsta kosti 40% á næstu 15 árum. Til að mæta þessu er nauðsynlegt að flýta samgönguframkvæmdum.

Þegar rýnt er enn frekar í samninginn kemur fram að heildarfjármögnun samgönguframkvæmda á svæðinu á tímabilinu yrði 120 milljarðar samkvæmt verðlagi ársins 2019. Ríkið átti að leggja fram 45 milljarða og sveitarfélög 15 milljarða. Gert var ráð fyrir að sérstök fjármögnun myndi standa straum af 60 milljörðum kr. Hún tryggð síðan við endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum við sölu á eignum ríkisins.

Á tímabilinu yrðu 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá yrði þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu.

Við endanlega útfærslu framkvæmda átti sérstaklega að huga að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.

Félag í eigu ríkis og sveitarfélaga verði stofnað um framkvæmdirnar og fjármögnun þeirra. Ríkið skuldbindur sig til að leggja uppbyggingarland að Keldum inn í félagið og mun ábati af þróun þess renna til uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu að því er fram kemur í samningnum sem undirritaður var á sínum tíma.