Sáttmáli um betri umferð

Umferðarsáttmálinn er samstarfsverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Umferðarstofu en einnig koma að því samtök og áhugafólk um bætta umferðarmenningu.FÍB er aðili að Umferðarsáttmálanum. Tilgangur verkefnisins er að fá almenning til að tala saman, sættast á og semja Umferðarsáttmála, einskonar reglur eða boðorð sem lýsa jákvæðri umferðarmenningu. Hvernig umferð viljum við hafa og hvernig ætlum við okkur að skapa hana?

Markmiðið er að móta umferðarsáttmála vegfarenda með aðstoð almennings. Átakið hófst formlega föstudaginn 1. mars en þá kom samstarfshópur um sáttmálann saman á sínum fyrsta fundi. Framlag þátttakenda er ólaunað en verkefnið er jákvætt og gefandi. Hópurinn kemur saman í fáein skipti en þess á milli er unnið í minni verkefnahópum. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili af sér í byrjun maí.

Tilgangur þessa sáttmála um betri umferð er að bæta umferðarmenninguna og þar með öryggi vegfarenda.  Ávinningur verkefnisins getur verið mikill fyrir samfélagið í heild.  Umferðin gengur betur og slysum fækkar.