Schlesser sigurvegari gærdagsins

http://www.fib.is/myndir/Schlesser.jpg
Jean Louis Schlesser.

Baráttujaxlinn, Frakkinn Jean Louis Schlesser sem keppir í Dakarrallinu nú sem undanfarin ár á eigin vegum og á eigin heimasmíðuðum bíl var sigurvegari gærdagsins í fjórða áfanga keppninnar. Árangur Schlessers  bæði nú, sem og undanfarin ár í þessari hörðu keppni er mjög athyglisverður þar sem hann eins og alltaf áður keppir algerlega á eigin vegum- enginn bílaframleiðandi er á bak við hann.

Í gær varð dauðaslys í Dakar rallinu þegar S. Afríkumaðurinn Elmer Symons (29) féll á mótorhjóli sínu og lést samstundis.

Eftir fjórða áfangann í gær er staðan þannig að í sjö efstu sætunum í mótorhjólaflokki eru KTM mótorhjól og það er Spánverjinn Marc Coma sem er efstur. Í bílaflokki eru Volkswagen bílar í þremur efstu sætunum og efstur er Spánverjinn Carlos Sainz. Gamla rallheimsmeistaranum, Finnanum og Evrópuþingmanninum Ari Vatanen hefur ekki gengið vel og er hann eftir gærdaginn í 85 sæti. Í trukkaflokki er Rússinn Vladimir Chagin á Kamaz efstur.

Nú eru keppendur að aka fimmta áfanga kepninnar um Atlasfjöll milli Quarzazate og Tan Tan í Marokkó. Heildarvegalengd dagsins er 768 km, þar af er 325 km löng sérleið. Þegar þetta er ritað (kl. 11.50) er Carlos Sainz fyrstur með tæpra fjögurra mínútna forskot á Portúgalann Carlos Sousa.
http://www.fib.is/myndir/Schlesser-bill.jpg
Hinn heimasmíðaði bíll Jean Louis Schlessers. Gangverk bílsins er mestanpart frá Ford.