Seat-eigendur mestu trassarnir

http://www.fib.is/myndir/Seat_leon.jpg
Seat Leon.

Bresk könnun leiðir í ljós að Seat-eigendur eru mestu trassarnir þegar kemur að því að fylgjast með stöðunni á vélarolíukvarðanum. 26 prósent eigenda Alfa Romeo bíla hafa ekki hugmynd um hvernig á að athuga olíustöðuna. Eigendur Lexus bíla eru þeir sem greinilega þykir einna vænst um bíla sína og eru vel vakandi fyrir því að aldrei vanti olíu á vélina.

Breska bílhlutafyrirtækið Comma, sem meðal annars selur vélarolíu fyrir bíla, stendur nú fyrir sérstökum vélarolíudögum í Bretlandi undir kjörorðunum –Athugaðu olíuna á bílnum þínum. Þessir vélarolíudagar hófust í gær og lýkur á föstudaginn, þann 19. júní.

Í tengslum við þessa olíudaga var birt könnun sem Comma lét gera um það hvernig fólk hirti bíla um sína. Í þessari könnun voru 3.800 bíleigendur spurðir hve oft þeir athuguðu vélarolíustöðuna á bílnum. Í hópi trassanna voru Seat eigendur í nokkrum sérflokki því 71,4 prósent þeirra létu það alveg vera að athuga olíustöðuna í samræmi við fyrimæli framleiðandans í handbók bílsins.

Volkswageneigendur voru líka verulega gleymnir og 43,3 prósent þeirra kváðust aldrei muna eftir því að tékka á olíunni. Audieigendur voru aðeins skárri. 40 prósent þeirra héldu að þeir þyrftu aldrei að athuga olíustöðuna milli þess sem bíllinn var smurður og skipt um olíu á honum.

Lang passasömustu bíleigendurnir reyndust vera Lexus eigendur. 2 af hverjum 5 Lexuseigenda kváðust nefnilega athuga olíuna einu sinni í viku.

Eigendur Alfa Romeo skiptust að stórum hluta í tvo hópa: Annarsvegar voru þeir Alfa eigendur sem sögðust athuga olíuna mánaðarlega og svo hins vegar  þau 26,2 prósent þeirra sem sögðust ekki hafa hugmynd um hvernig ætti að fara að því og gerðu það því aldrei.

Listinn yfir þá bíla sem breskir eigendur hirða minnst um er svona:

1) Seat - 71.4 %
2) Jaguar - 68 %
3) Volkswagen - 67.1 %
4) Nissan - 65.7 %
5) Citroën - 63.1 %
6) Mercedes - 62.7 %
7) Renault - 61.9 %
8) Peugeot - 61.5 %
9) Fiat - 58.4 %
10) Toyota - 57.6 %