Sekt hækkar fyrir akstur gegn rauðu ljósi

Drög að nýrri reglu­gerð um sekt­ir vegna um­ferðarlaga­brota hafa verið birt í sam­ráðsgátt stjórn­valda. Meðal þeirra breyt­inga sem lagðar eru til er að sekt fyr­ir akst­ur gegn rauðu ljósi hækki úr 30.000 krón­um í 50.000 krón­ur, auk þess sem sekt fyr­ir van­rækslu á skyld­um veg­far­enda við til­kynn­ingu um­ferðaró­happs hækki í 30.000 krón­ur, en í nú­gild­andi reglu­gerð eru þær 20.000-30.000 krón­ur.

Lagt er til að viður­lög við ölv­unar­akstri er magn vín­anda í blóði mæl­ist 1,20-1,50 pró­mill verði 1 árs og 6 mánaða svipt­ing öku­rétt­inda, en svipt­ing­in nem­ur nú einu ári. Sekt­in hald­ist þó óbreytt, 180.000 krón­ur.

Þá er lagt til að nýju þrepi verði bætt við töflu um svipt­ing­ar vegna ölv­unar­akst­urs. Sam­kvæmt nú­gild­andi reglu­gerð eru all­ir þeir sem mæl­ast með meira en 2 pró­sent af vín­anda í blóðinu svipt­ir rétt­ind­um í tvö ár, en í drög­un­um er gert ráð fyr­ir að svipt­ing­in vari í þrjú ár sé hlut­fall vín­anda á bil­inu 2,01 til 2,50 pró­mill, en þrjú og hálft ár fari hlut­fall vín­anda yfir 2,50 pró­mill.

Fíkni­efn­un­um metam­feta­míni og metýl­fenídati verður einnig bætt við töflu um þau efni sem ekki mega vera í blóði öku­manns, en þar eru fyr­ir efni á borð við kókaín, THC (virka efnið í kanna­bisi), MDMA og kókaín.

Óljóst er hvort hækkun sekta muni hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ástæða þess er að viðurlögum skv. reglugerðinni er ætlað að hafa áhrif á hegðun ökumanna og að þeir brjóti ekki af sér en ekki að skapa tekjur