Sektaðir fyrir „hógværðina“

Hyundai og Kia í Bandaríkjunum hafa gefið upp of lágar eyðslu- og CO2 útblásturstölur nýrra bíla – tölur sem fjarri eru raunveruleikanum. Fyrir þetta athæfi hefur framleiðendum bílanna nú verið gert að greiða um 900 þúsund kaupendum bílanna 395 milljónir dollara í skaðabætur. Hyundai er gert að greiða 600 þúsund bílakaupendum 210 milljónir dollara bætur og Kia er gert að greiða 300 þúsund kaupendum 185 milljónir dollara.

Þetta er niðurstaða málaferla á hendur Kia og Hyundai (sem í grunninn er sami framleiðandi).  Það snýst einkum um bíla af árgerðum 2011-2013. Uppgefnar eyðslu- og mengunartölur bílanna eru of lágar og úr takti við raunveruleikann. Óháðar mælingar hafa nefnilega staðfest allt að 1-3 lítrum meiri eyðslu á hundraðið en ætla mátti af uppgefnu eyðslutölunum. Talsmenn Hyundai og Kia hafa gefið þær skýringar á misræminu að mistök hafi átt sér stað í sameiginlegri prófunarmiðstöð þeirra í S. Kóreu.