Sérbyggður bíll Bobby Darin

Hinn handsmíðaði Draumabíll (Dream Car) söngvarans Bobby Darin.
Hinn handsmíðaði Draumabíll (Dream Car) söngvarans Bobby Darin.

Bandaríkjamaðurinn Bobby Darin var fjölhæfur og heimsþekktur söngvari og dægurlagahöfundur á sjötta og sjöunda áratuginum. Meðal sígildra laga hans eru Oh Diana og Eighteen yellow roses eða 18 rauðar rósir. Hann eignaðist sérsmíðaða bílinn DiDia 150 árið 1961 og greiddi fyrir hann 150 þúsund dollara sem á gengi dagsins í dag jafngildir 1,5 milljón dollurum. Árið 1961 þótti kaupverðið vera svo rosalegt að  það var skráð í heimsmetabók Guinness sem hið hæsta sem nokkru sinni hefði verið greitt fyrir fólksbíl.

Sá sem hannaði bílinn var fatahönnuður sem hét Andrew Di Dia og óneitanlega er bíllinn afar mikilfenglegur þótt um fegurðina muni trúlega seint ríkja almenn sátt. Hönnuðurinn fékk fjóra bílasmiði í Detroit til að byggja bílinn og luku þeir verkinu á sjö árum, frá 1953-1960. Við verklok 1960 stóð byggingarkostnaðurinn í 93.647,29 dollurum. Bobby Darin kynntist Andrew Di Dia þegar hann var á hljómleikaferð í Detroit árið 1957. Hann sá bílinn sem þá var farinn að taka á sig mynd og sagði hönnuðinum að ef hann ætti eftir að slá rækilega og endanlega í gegn í tónlistinni, myndi hann vilja eignast bílinn. Svo sló hann í gegn árið 1959 með laginu Dream Lover, en metsölulögin áttu eftir að verða miklu fleiri. En þarna í Detroit 1957 falaðist hann fyrst eftir bílnum og eignaðist hann svo 1961.  

Burðarvirki bílsins, sem aðeins er til í þessu eina eintaki, er úr álprófílum og yfirbyggingin er úr áli og er hvorttveggja handsmíðað og –mótað.  Drifið er á afturhjólunum og sú vél sem fyrst var sett í hann var 365 rúmtommu Cadillac vél. Síðar var henni skipt út fyrir 427 rúmtommu Ford vél sem enn er í bílnum. Hann var sprautaður 30 sinnum með glitrandi rauðu lakki. Það glitrar vegna þess að í því er demantamulningur.   

Að innan er bíllinn ryðrauður að lit. Innréttingar allar, útvarp, hita- og sjálfvirkt loftræstikerfi er sérbyggt og meðal nýjunga sem ekki þekktust á þessum tímum er að hátalarar eru aftur í bílnum. Bíllinn er fjögurra sæta og við öll sætin er að finna stjórntæki til að stýra hitastigi og loftræstingu og við hvert sæti er sígarettukveikjari sem þótti víst mikið þarfaþing þegar flestallir reyktu. Þegar sól skín í heiði og brakandi þurrkur er í lofti, sjást engar rúðuþurrkur en svo þegar rigna tekur kviknar sjálfvirkt á þurrkunum og þær koma í ljós.

Á þessum bíl kom Bobby Darin akandi til 34. Óskarsverðlaunahátíðarinnar árið 1961 ásamt konu sinni sem hét Sandra Dee. Hönnuður bílsins; Andrew Di Dia kom akandi á eftir honum í viðhafnarvagni eða limúsínu eins og slíkt nefnist víst.  Heitt var í veðri og þegar bíllinn stöðvaðist við rauða dregilinn sauð hressilega á honum og héldu viðstaddir að kviknað væri í honum. Það sem gerðist var að í stað venjulegrar reimdrifinnar kæliviftu við vatnskassann voru tvær rafmagnsviftur sem kveikja þurfti á með sérstökum rofa inni í bílnum. Því hafði Bobby Darin gleymt og þessvegna sauð á bílnum.

Bobby Darin notaði bílinn til þess að sýna sig á honum við opinber tækifæri en þess í milli fékk Andrew Di Dia hann lánaðan til að ferðast um Bandaríkin á honum og sýna hann. Einnig birtist bíllinn í nokkrum kvikmyndum, en árið 1970 gaf Bobby Darin bílinn samgönguminjasafninu í St Louis og þar er
hann enn.